Miðaldadagar á Gásum verða ekki í ár
Stjórn Gásakaupstaðar ses og Gásverjar hafa tekið þá ákvörðum í ljósi aðstæðna að aflýsa Miðaldadögum á Gásum í ár. Tár er á hvarmi margra Gásverja vegna þessarar ákvörðunar en fyrir marga þeirra, ekki síst þá yngstu, er þetta hápunktur sumarsins.
Síðustu ár hafa um 2000 manns árlega ferðast aftur til fortíðar þriðju helgina í júlí þegar þeir sækja Miðaldadaga á Gásum í Eyjafirði heim. Í ár verða menn að halda sig í samtímanum en fá tækifæri að ári til að upplifa verslunarstaðinn frá miðöldum á blómatíma hans. Þá verður á ný hægt að kynnast handverki og daglegum störfum frá miðöldum í sviðsmynd verslunarstaðarins á Gáseyrinni þar sem reykur úr pottum fyllir vit, Gásverjar bregða á leik og taktföst högg eldsmiða og sverðaglamur heyrast um allan fjörð.
Gásverjar allir hlakka til að ferðast aftur til fortíðar með ferðaþyrstum gestum helgina 16.-17. Júlí 2021
Nánar um Gásir og MIðaldadaga á Gásum á gasir.is
20.05.2020
Fréttir