Kirkjurnar

Eyjafjarðarsveit er eitt prestakall, Laugalandsprestakall, myndað af sex sóknum sem hver hefur sína kirkju. Kirkjurnar eru taldar upp hér að neðan í landfræðilegri röð. Farið verður hringinn í sveitarfélaginu, byrjað yst að austan, haldið suður fjörðinn og svo norður eftir og út að vestan.

 

Kaupangskirkja

Kaupangskirkja í EyjafjarðarsveitEkki er ljóst hversu lengi kirkja hefur verið í Kaupangi en hennar er þó getið í Auðunnarmáldaga frá 1318. Kirkjan var áður annexía frá Hrafnagili og helguð Maríu guðsmóður og Ólafi konungi helga í kaþólskum sið. Núverandi kirkja er eign safnaðarins og var hún vígð 1922. Hún var reist af Sveinbirni Jónssyni, sem kenndur var við Ofnasmiðjuna, en hann var þá byggingameistari á Akureyri. Kirkjan er hlaðin úr r-steini og er sérkennileg vegna staðsetningar turnsins. Hún tekur um 90 manns í sæti. Kirkjan var endurgerð að innan 1988. Þar er gömul brík frá 17. öld.

 
 

Munkaþverárkirkja
Munkaþverárkirkja í EyjafjarðarsveitÁ Munkaþverá er talið að hafi verið kirkja frá því skömmu eftir kristnitöku og var hún helguð Maríu guðsmóður. Benediktsklaustur var sett þar 1155 og stóð það til siðaskipta. Núverandi kirkja er byggð úr timbri 1844 af Þorsteini Daníelssyni á Skipalóni. Hún er með sönglofti og tekur um 160 manns í sæti. Dýrgrip einn átti kirkjan, alabastursbrík sem talin var vera frá því um 1425. Bríkin var seld þjóðminjasafni Dana að lokinni kirkjubyggingunni. Á árunum 1985-88 voru gerðar verulegar endurbætur á kirkjunni að utan og kirkjugarðurinn sléttaður. Þá var einnig byggt safnaðarhús í kirkjugarðinum.


Möðruvallakirkja
Möðruvallakirkja í EyjafjarðarsveitÁ Möðruvöllum er talið að kirkja hafi verið byggð fljótt eftir kristnitöku og var hún helguð heilögum Marteini. Kirkjan sem nú stendur var að mestu byggð 1847 og vígð 1848. Kirkjan er úr timbri en turn var settur á hana síðar. Hún fauk af grunni 1972 og hófust þá fljótlega viðgerðir sem lauk 1988 er kirkjan var endurvígð. Enn stendur við kirkjuna klukknaport frá 1781 og er það friðlýst. Djásn kirkjunnar er altarisbrík úr alabastri frá Nottingham í Englandi, sem Margrét Vigfúsdóttir kirkjuhaldari gaf 1484. Kirkjugarðurinn var sléttaður 1992 og steinveggur um hann endurhlaðinn. Kirkjan er bændakirkja.


Hólakirkja
Hólakirkja í EyjafjarðarsveitHólakirkja var helguð Jóhannesi skírara og þar hefur sennilega setið kirkja frá upphafi kristni á Íslandi. Hún var áður annexía frá Miklagarðskirkju sem árið 1871 var lagt undir Saurbæ. Núverandi kirkja var reist 1853. Yfirsmiður var Ólafur Briem timburmeistari á Grund. Kirkjan er byggð úr timbri með kross á framstafni. Hún rúmar 120 manns í sæti. 1882 var sett söngloft í kirkjuna sem nær yfir tvö fremstu stafgólfin. Í kirkjunni er gömul og merkileg altaristafla úr tré með tveimur vængjum sem opnast til beggja hliða. Hlaðinn grjótveggur var umhverfis kirkjugarðinn en hann hefur verið stækkaður nokkrum sinnum. Kirkjan er bændakirkja.


Saurbæjarkirkja
Saurbæjarkirkja í EyjafjarðarsveitSaurbær hefur frá fornu fari verið kirkjustaður og þar var klaustur um nokkurra áratuga skeið um og eftir 1200. Kirkjan var helguð signaðri Cecilíu og heilögum Nikulási í kaþólskri tíð. Saurbæjarprestakall var lagt niður 1907 og sóknir prestakallsins, sem voru Saurbæjarsókn, Miklagarðssókn, Hólasókn og Möðruvallasókn, lagðar til Grundarþinga. Prestur sat þó í Saurbæ til 1931. Sú kirkja sem nú stendur var byggð 1858 og er ein örfárra torfkirkna sem enn standa hér á landi en að innan er hún þiljuð í hólf og gólf. Yfirsmiður var Ólafur Briem. Kirkjan rúmar um 60 manns í sæti.


Grundarkirkja
Grundarkirkja í EyjafjarðarsveitGrund hefur verið kirkjustaður frá fornu fari. Kirkjan var helguð Lárentíusi píslarvotti. Núverandi kirkja var byggð af Magnúsi bónda Sigurðssyni á Grund árið 1905 fyrir eigið fé. Grundarkirkja er með veglegri kirkjum landsins og sú langstærsta sem einstaklingur hefur byggt. Yfirsmiður var Ásmundur Bjarnason frá Eskifirði. Glerið í gluggana skar Magnús sjálfur og situr það enn. Málari var norskur, Muller að nafni. Nokkrir merkir munir sem áður tilheyrðu kirkjunni eru nú varðveittir í Þjóðminjasafni svo sem kaleikur frá 15. öld svo og kirkjustóll úr tíð Þórunnar Jónsdóttur Arasonar. Kirkjan var bændakirkja en eigendurnir Aðalsteina Magnúsdóttir og Gísli Björnsson færðu hana sókninni að gjöf vorið 2012.

Síðast uppfært 21. ágúst 2019
Getum við bætt efni síðunnar?