Blómleg ferðaþjónusta er í Eyjafjarðarsveit þar sem hægt er að gera sér góðan dag með því að aka sveitarhringinn og bera þar augum fallega náttúruna sem Eyjafjarðará liðast um.
Á heimasíðu Ferðamálafélags Eyjafjarðarsveitar og Markaðsstofu Norðurlands má nálgast upplýsingar um þjónustuaðila í sveitarfélaginu.
Góðar göngu- og hjólaleiðir eru í sveitinni og afar vinsælt að ferðast um útivistastíginn milli Hrafnagils og Akureyrar. Þá er hægt að ganga á ýmis fjöll í sveitarfélaginu og gnæfir tignarleg Kerling hæst yfir þeim öllum.
Í Hrafnagili er fjölskylduvæn sundlaug með varðlaug og stórri rennibraut ásamt leiktækjum sem umvefja umhverfi hennar ásamt glæsilegu og fullbúnu tjaldsvæði. Þar má einnig finna Jólahúsið sem sett hefur svip sinn á ferðaþjónustu á norðurlandi um árabil. Í sveitinni má bera augum sex fallegar kirkjur og hið frábæra Smámunasafn Sverris Hermannssonar sem hefur að geyma skemmtilegan karakter og fjölda muna af allri heimsins gerð.
Fjölbreytt úrval gistimöguleika, veitinga og afþreyingar er í Eyjafjarðarsveit og geta gestir svæðisins notið matar úr héraði, dægrastyttingar og gistingar í kyrrð og nálægt við náttúru og persónuleika sveitarinnar sem upplifa má á Handverkshátíð Eyjafjarðarsveitar, stærstu handverkshátíðar Íslands.
Kortasjá, sem er vefkort af sveitarfélaginu má sjá hér. Notendur geta þar stillt hversu nákvæm mynd er skoðuð.