Eyjafjarðarsveit varð til þann 1. janúar 1991, við sameiningu hreppanna þriggja sunnan Akureyrar, Hrafnagilshrepps, Saurbæjarhrepps og Öngulsstaðahrepps. Samvinna þessara þriggja fornu hreppa á sér þó lengri sögu. Árið 1971 hófst kennsla í Hrafnagilsskóla, unglingaskóla sem hrepparnir þrír reistu í sameiningu. Eyjafjarðaráin var brúuð árið 1982 þegar Miðbraut var lögð milli Laugalands að austan og Hrafnagils að vestan. Barnaskólar Hrafnagilshrepps og Öngulsstaðahrepps voru þar sitt hvoru megin ár og var þar komin ákveðin forsenda aukinnar samvinnu, þótt barnaskóli Saurbæjarhrepps væri staðsettur í Sólgarði framar í firðinum.
Hreppsnefndir hinna fornu hreppa settu saman vinnunefnd sem starfaði veturinn 1984-85 að mati á kostum og göllum sameiningar. Eftir að nefndin hafði skilað af sér, voru haldnir kynningarfundir í hreppunum og þar var það mál manna að flest mælti með aukinni samvinnu hreppanna en að fæstir væru þá enn tilbúnir til að ganga alla leið og sameinast.
Árið 1987 opnuðu hrepparnir sameiginlega skrifstofu og var henni fundinn staður í gamla barnaskólanum að Syðra-Laugalandi. Sveitarskrifstofan var þar áfram til húsa eftir sameiningu allt þar til í júní árið 2011 að opnuð var ný sveitarskrifstofa að Skólatröð 9, Hrafnagilshverfi þar sem áður var hluti heimavistar Hrafnagilsskóla.
Búseta Eyjafjarðar fram, er þó mun lengri en tilvist hreppanna sem nefndir eru hér að ofan. Í sögulegu samhengi er fróðlegt að rifja upp landnám Helga magra í Eyjafirði og í valstikunni hér til hliðar má velja skemmtilega samantekt um landnámið sem Valdimar Gunnarsson menntaskólakennari tók saman.