Hestamannafélagið Funi starfar á hefðbundnum vettvangi hestamennsku og hestaíþrótta. Má þar telja íþróttamót, gæðingamót og kappreiðar, bæjakeppni, messureið, kvennareið og margt fleira. Reiðnámskeið hafa verið fastur liður í starfsemi félagsins um árabil og á sumrin er sérstakt námskeið fyrir byrjendur þar sem hestlausum krökkum er séð fyrir reiðskjótum og hafa þau námskeið alltaf mælst vel fyrir.
Melgerðismelar eru mótssvæði Funa og þar eiga Funamenn sitt félagsheimili, Funaborg sem hefur það verið mikil lyftistöng fyrir félagið. Þar eru haldnar ýmsar uppákomur svo sem spilavist, bingó, fundir, kaffihlaðborð og fleira, auk þess sem félagið hefur boðið þessa aðstöðu til útleigu fyrir ýmsar samkomur.
Á félagssvæði Funa stendur hrossarækt á gömlum merg, enda er þar fjöldi viðurkenndra hrossaræktarbúa og hrossaræktin stunduð af kappi.
Heimasíðu Hestamannafélagsins Funa má sjá hér.