Íþróttavika Evrópu 23. – 30. september 2024 í Eyjafjarðarsveit

Fréttir

 

Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport) er haldin víðsvegar um álfuna í september ár hvert. Markmið íþróttavikunnar er að kynna íþróttir og hreyfingu fyrir almenningi í Evrópu og er hún ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi.

Hér í Eyjafjarðarsveit verður boðið upp á góða dagskrá sem öll er án endurgjalds fyrir þátttakendur. Leitað var til einstaklinga og félagasamtaka um aðkomu að dagskránni og hafa undirtektir verið frábærar. Pdf skjal með dagskránni hér.

Frítt er í sund alla þessa daga, frá mánudeginum 23. – mánudagsins 30. september.

Ungmennafélagið Samherjar bjóða upp á fjölda opinna tíma í ýmsum íþróttagreinum sem fólki gefst kostur á að kynna sér nánar. Fullorðinsstarf félagsins hefur stóreflst og ýmislegt í boði.

Skógræktarfélag Eyfirðinga býður til gönguferðar með leiðsögn um Grundarreit. Þar verður sagt frá starfsemi Skógræktarfélagsins og þeim fjölmörgu útivistarmöguleikum sem í boði eru í skógum Eyjafjarðar.

Íbúum 60 ára og eldri gefst tækifæri til að kynna sér hina bráðskemmtilegu íþrótt Ringo, en Félag eldri borgara í Eyjafjarðarsveit hefur stundað þessa íþrótt frá því síðasta vetur með góðum árangri.

Erwin van der Werve ætlar að bjóða upp á spennandi almenningsíþróttaviðburði í íþróttavikunni. Um er að ræða hjólaskíða- eða línuskautaferð þar sem allir geta valið sér vegalengdir eftir góða upphitun á bílastæðinu við Dalborg. Einnig má koma með hjólabretti, hlaupahjól og slíkt, en algjört skilyrði er að allir séu með hjálm á höfðinu.

Hvað andlegu hliðina varðar býður Þóra Hjörleifsdóttir upp á kynningu á Yin yoga og Yoga Nidra í Hjartanu í Hrafnagilsskóla og þurfa þátttakendur að taka með sér dýnur, kodda og teppi. Sólveig Haraldsdóttir í Vökuland Wellness Center verður annars vegar með kyrrðarjóga og hljóðheilun og hins vegar sómatískan jógatíma (áfallajóga) þar sem fólki gefst kostur á að skilja líkamann betur með áherslu á að koma jafnvægi á taugakerfið. Áhugasamir þurfa að skrá sig á viðburðinn í Vökulandi mánudaginn 30. á netfanginu info@vokulandwellness.is

Eyrún Lind Árnadóttir íþróttakennari Hrafnagilsskóla verður með námskeið fyrir nemendur í 9. og 10. bekk skólans um það hvernig umgangast á líkamsræktartæki og setja upp æfingaáætlun. Í framhaldinu þurfa forráðamenn að skrifa upp á ábyrgðaryfirlýsingu til að krakkarnir geti nýtt sér líkamsræktaraðstöðuna í framhaldinu. Þessi viðburður verður auglýstur innan veggja skólans.

Rúsínan í pylsuendanum verður síðan heimsókn Geirs Gunnars Markússonar, næringarfræðings þar sem hann ætlar að halda fyrirlestra fyrir íbúa Eyjafjarðarsveitar um næringu og hollan lífsstíl. Hann byrjar á því að hitta unglingana í félagsmiðstöðinni Hyldýpi föstudaginn 27. september, morguninn eftir verður fyrirlestur fyrir eldri borgara í matsal Hrafnagilsskóla og eftir hádegið sama dag verður fyrirlestur í matsalnum fyrir almenning. Geir Gunnar starfar sem næringarfræðingur hjá Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði og hefur getið sér gott orð fyrir líflega og áhrifaríka fyrirlestra.

 

Mánudagur 23. september

  • Kl. 19 - 20 - Opinn þrektími hjá UMF Samherjum í íþróttahúsinu.
  • Frítt í sund.

Þriðjudagur 24. september

  • Kl. 11.25 - 12.30 Opinn tími í Ringo í íþróttahúsinu.
  • Kl. 20.30 - 22.00 Opinn tími hjá UMF Samherjum í blaki karla.
  • Frítt í sund.

Miðvikudagur 25. september

  • Kl. 17.00 – 18.00 Opinn tími í Zumba í Hjartanu.
  • Kl. 17 Línuskauta- og hjólaskíðaferð með Erwin Van der Werve. Nánari upplýsingar neðst á síðunni.
  • Kl. 19.30 - 20.30 Opinn tími í badminton í íþróttahúsinu.
  • Frítt í sund.

Fimmtudagur 26. september

  • Kl. 17.15-18.30 Kyrrðarjóga og hljóðheilun hjá Sólveigu á Vökulandi.
  • Kl. 20.30 - 22 Opinn tími í blaki kvenna í íþróttahúsinu.
  • Frítt í sund.

Föstudagur 27. september

  • Kl. 19.30 Fyrirlestur fyrir unglinga í Hyldýpinu með Geir Gunnari Markússyni næringarfræðingi.
  • Frítt í sund.

Laugardagur 28. september

  • Kl. 10 Fyrirlestur fyrir +60 ára í matsal Hrafnagilsskóla með Geir Gunnari næringarfræðingi.
  • Kl. 11 - 12 Kynning á Yin yoga og yoga Nidra með Þóru Hjörleifs í Hjartanu. Taka með sér dýnur, kodda og teppi.
  • Kl. 14 Fyrirlestur fyrir almenning í matsal Hrafnagilsskóla með Geir Gunnari næringarfræðingi.
  • Frítt í sund

Sunnudagur 29. september

  • Kl. 10 Gönguferð með leiðsögn í Grundarreit. Sagt frá reitnum og öðrum útivistarmöguleikum í skógum Eyjafjarðar
  • Kl. 11 Línuskauta- og hjólaskíðaferð með Erwin Van der Werve. Nánari upplýsingar neðst á síðunni.
  • Kl. 16 - 17. Opinn tími í körfubolta karla í íþróttahúsinu.
  • Frítt í sund.

Mánudagur 30. september

  • Kl. 17.15-18.05 Sómatískur jógatími (áfallajóga) hjá Sólveigu á Vökulandi. Rólegt jógaflæði þar sem fólki gefst kostur á að skilja líkamann betur og sérstök áhersla er að koma jafnvægi á taugakerfið.