Vegamál

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur eins og undanfarin ár kynnt kröfur sínar um útbætur í vegamálum o. fl. fyrir fjárlaganefnd Alþingis og þingmönnum Norðausturkjördæmis.
Á fundi með fjárlaganefnd Alþingis hinn 28. sept. s. l. voru henni kynntar kröfur sveitarstjórnar um framlög til vegamála og umsóknir um styrki til ákveðinna verkefna, sem eru eftirfarandi:

  • Rekstur Tónlistarhússins Laugarborgar.
  • Stofnreiðleið frá Akureyri að Melgerðismelum og fyrirhleðslur sem tengjast reiðvegagerðinni.
  • Tilraunaverkefni vegna eyðingar á kerfli.
  • Safnamál.

Eins og verið hefur undanfarin ár leggur sveitarstjórn þunga áherslu á úrbætur í vegamálum. Á vegaáætlun til ársins 2010 eru einungis gert ráð fyrir framlagi til endurbóta á Leifsstaðavegi (kr. 15 millj. 2008) og byrjunarframlagi til endurbygg-ingar á Hólavegi (50 millj. árið 2010). Í greinargerð til fjárlaganefndar er þess krafist að fjárveitingar til vegframkvæmda í sveitarfélaginu verði auknar frá því sem gildandi vegaáætlun gerir ráð fyrir á umræddu tímabili.

Á fundi með þingmönnum Norðausturkjördæmis og fulltrúum úr sveitarstjórn hinn 23. okt. s. l. voru vegamálin enn til umræðu á grundvelli eftirfarandi greinargerðar:
Endurbygging tengivega og brúagerð, nýframkvæmdir og framkvæmdum flýtt.

2008: Ný brú verði byggð á Eyjafjarðará í stað núverandi Stíflubrúar.
2009: Ný brú verði byggð á Eyjafjarðará í stað núverandi Hringmelsbrúar.

Kostnaður við brúagerðina er áætlaður kr. 50 millj. hvort árið.

2009: Hafnar verði framkvæmdir við endurbyggingu Hólavegar og til þess veittar
kr. 50 millj. Sama upphæð er áætluð í þetta verk á árinu 2010.

Hækkun fjárveitinga til framkvæmda á árinu 2008.

2008: Áætlað er að framkvæmdir við fyrsta áfanga endurnýjunar Eyjafjarðarbrautar vestri frá Sandhólum að Nesi hefjist í haust. Endurnýjunin verði látin ná að Gullbrekku. Viðbótarfjárþörf er áætluð ca. kr 12 millj. en talið er að vegurinn þoli bundið slitlag án teljandi styrkingar.

2008: Fjárveiting til framkvæmda við Leifsstaðaveg verði hækkuð úr kr. 15 millj. í kr. 40 millj.

Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur mörg undanfarin á kynnt þingmönnum Norðaustur-kjördæmis, fjárlaganefnd Alþingis, samgöngunefnd Alþingis og samgönguráði kröfur sínar um úrbætur í vegamálum innan sveitarinnar og þörf fyrir stórauknar fjárveitingar til viðhalds og endurnýjunar tengivega. Í viðamikilli skýrslu frá okt. 2004 er gerð grein fyrir ástandi veganna og endurnýjunarþörf. Þar var kostnaður við endurnýjun vegakerfisins metinn á kr. 1.265 millj. Meirihluti þess kostnaðar tengist endurnýjunarþörf í innanverðu sveitarfélaginu þar sem ástandið er verst og framkvæmdaþörfin brýnust.

Þrátt fyrir að sveitarstjórn telji sig hafa sýnt fram á það með sterkum rökum að yfirvöld vegamála og fjárveitingavaldið gætu ekki lengur látið hjá líða að bregðast við með auknum fjárveitingum og tryggja fjárveitingar til framkvæmda á vegaáætlun hefur lítið þokast í þeim efnum.

Þótt sveitarstjórn telji sig hafa rökstutt kröfur sínar með fullnægjandi hætti skal hér enn vikið að helstu forsendum þeirra.

• Á því svæði sem endurnýjun vega (826 Hólavegur og 821 Eyjafjarðarbraut vestri framan Sandhóla) er hvað brýnust hafa nánast engar framkvæmdir átt sér stað í áratugi, hvorki endurnýjun eða viðhald.
• Fyrrnefndir vegir eru byggðir fyrir miðja síðustu öld, þeir eru mjóir, snjósæknir á ákveðnum stöðum, ofaníburður lélegur og þeir þola alls ekki lengur þá umferð sem um þá fer.
• Í bleytu vaðast þeir upp og það sem á að heita bindiefni á yfirborði þeirra verður drullusvað. Drullan þéttist sem harður leir þegar hún þornar, hleðst á ökutæki og vélar og veldur skemmdum ekki síst á viðkvæmum landbúnaðartækjum sem í auknum mæli eru búin ýmiss konar rafeindabúnaði.
• Á þessu svæði eru tvær brýr sem báðar eru byggðar á árunum 1932 – 1933 (Stíflubrú og Hringmelsbrú við Sandhóla). Þær eru mjóar og burðarlitlar og hafa verið dæmdar nánast ónýtar af tæknimönnum Vegagerðarinnar.
• Stærstu snjóruðningstæki komast ekki yfir þessar brýr og jafnvel ekki stærri landbúnaðartæki.

Miklar tækni- og búháttabreytingar, sem orðið hafa í landbúnaðinum á s. l. árum felast, m. a. í eftirfarandi:

• Jörðum í búrekstri fækkar og bú stækka. Landbúnaðarvélar stækka og verða fyrirferðarmeiri. Sami búrekandi nýtir jafnvel fleiri jarðir og fer lengri leiðir til heyöflunar en áður.

• Fyrrnefndar brýr eru það mjóar að sum landbúnaðartæki komast ekki yfir þær. Um það eru dæmi, og þeim fer fjölgandi, að bændur í nágrenni þeirra, sem nýta tún til heyskapar báðu megin árinnar þurfi að aka með tæki sín allt að 30 km lengri leið vegna ástands brúnna, vegalengd sem annars væri 4 – 6 km að hámarki.

Það er mat sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar að ástand vega í innanverðu sveitarfélaginu sé orðið mjög alvarlegt og það muni leiða til samdráttar í landbúnaði og til íbúafækkunar ef ekkert verði að gert. Á gildandi vegaáætlun er ekki gert ráð fyrir neinum fjárveitingum til framkvæmda á umræddu svæði fyrr en árið 2010. Það er krafa sveitarstjórnar að þing-menn kjördæmisins láti málið til sín taka og tryggi fjármagn á árunum 2008 og 2009 til framkvæmdanna eins og fram kemur í samantekt í upphafi þessarar greinargerðar.


Framkvæmdum flýtt:

Framkvæmdir við fyrsta áfanga við endurnýjun Eyjafjarðarbrautar vestri frá Sandhólum að Nesi áttu að hefjast s. l. vor en var frestað þar sem tilboð þóttu of há. Verkið hefur nú verið boðið út aftur og vonir standa til að því verði lokið á ásættanlegum tíma. Annar áfangi þessa verks var áætlaður vegspottinn frá Nesi að Gullbrekku sem er ca. 1.5 km. Gerð er krafa um að þeirri framkvæmd verði bætt við og verkinu lokið á árinu 2008. Áætlaður kostnaður er ca. kr 12 millj. en talið er að vegurinn þoli bundið slitlag án teljandi styrkingar.

Einu fjárveitingarnar til vegframkvæmda í Eyjafjarðarsveit eru skv. gildandi vegaáætlun kr. 15 millj. vegna Leifsstaðavegar. Um er að ræða breikkun og styrkingu. Byggð hefur þéttst mikið við þennan veg á síðustu árum og umferð aukist að sama skapi. Frekari íbúðarbyggð mun rísa við veginni í náinni framtíð. Vegurinn er burðarlítill og hættulegur. Til að ljúka verkinu með þeim hætti sem æskilegt og nauðsynlegt getur talist vantar ca. kr. 25 millj. til að fjárveiting dugi.

Sveitarstjóri.