Miðaverð kr. 2.000,-
Flytjandi: Valgerður Andrésdóttir
Efnisskrá: Franz Mixa - Sónata, Toru Takemutsu - Litany, Sodia Gubaidulina - Chaconne, W. A. Mozart - Sónata KV 576, Franz Liszt - Dante Sónata
Valgerður Andrésdóttir lauk einleikaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1985. Hún stundaði nám við Tónlistarháskólann í Berlín þaðan sem hún lauk prófi 1992. Hún var búsett í Kaupmannahöfn í nokkur ár þar sem hún starfaði við kennslu og píanóleik. Valgerður hélt sína fyrstu einleikstónleika 1990. Síðan þá hefur hún spilað einleikstónleika, kammertónleika og spilað með söngvurum. Hún hefur einnig unnið með CAPUT og Sinfóníuhljómsveitinni. Valgerður starfar nú við Tónlistarskólann í Hafnarfirði.
Um höfundana
Franz Mixa fæddist í Vínarborg árið 1902. Hann stundaði nám við Tónlistarháskólann í Vín og varð snemma fjölhæfur tónlistarmaður. Hann lauk doktorsprófi frá Tónlistarháskólanum árið 1929. Þá hafði hann samið þó nokkur verk og er píanósónatan frá þessum tíma. Að öllum líkindum er hér um að ræða fyrsta opinbera flutning sónöturnnar hér á landi.
Árið 1930 haga atvikin því þannig til að Franz Mixa kom til Íslands í tengslum við Alþingishátíðina. Varð úr, að hann settist hér að og vann mikið frumkvöðlastarf við uppbyggingu tónlistarlífs í Reykjavík. Hann átti þátt í að stofna Hljómsveit Reykjavíkur og Tónlistarskólann í Reykjavík og vann ómetanlegt starf hér með sínum miklu og fjölbreyttu hæfileikum. Árið 1938 hvarf hann svo aftur til Austurríkis og tók við ábyrgðarstöðum þar í landi. Eftir hann liggja nokkrar sinfóníur, óratoríur, ópera um Fjalla-Eyvind, ógrynni af sönglögum, píanóverk og kammerverk svo eitthvað sé upptalið. Franz Mixa lést í Þýskalandi árið 1994.
Toru Takemitsu er eitt frægasta tónskáld Japana og eru verk hans flutt um allan heim. Hann fæddist í Tokyo 1930 og byrjaði í tónsmíðanámi 1948 hjá Yasuji Kiyose en var aðallega sjálfmenntaður í tónsmíðum. Takemitsu var undir miklum frönskum áhrifum og hann átti að hafa sagt að Debussy hafi verið hans helsti kennari þó þeir hafi skiljanlega aldrei hist en Debussy dó árið 1918. Takemitsu “debuteraði” árið 1950 með píanóverkinu “Lento in due Movimenti” sem hann samdi í minningu vinar síns Michael Vyner. Árið 1989 skrifaði hann það niður eftir minni því upprunalega handritið var glatað. Það er verkið sem við heyrum hér eða Litany.
Sofia Gubaidulina er eitt helsta tónskáld Rússa. Hún er fædd 1931 og æskuárum sínum í Kazan, höfuðborg Tartaralýðveldisins, hefur hún lýst þannig að tónlist hafi verið mikilvægasti þátturinn í lífi hennar. Umhverfið var gróðursnautt ekki eitt einasta tré og ekkert við að vera. Þegar hún fékk píanó voru örlög hennar ráðin. Gubaidulina skrifaði Chaconne undir lok náms hennar í Konservatoríinu í Moskvu 1963. Það var pantað af Marinu Mdivani nemanda Gilels, sem frumflutti það 1966.
Sónata Mozarts í D-dúr KV576 er síðasta píanósónata tónskáldsins, skrifuð í Vín árið 1789. Það ár lagði Mozart upp í tónleikaferð til að bæta bágan fjárhag og ferðaðist meðal annars til Berlínar þar sem hann hitti Friðrik Vilhjálm II Prússakóng. Þar fékk hann beiðnir um tónverk og þar á meðal að skrifa sex litlar píanósónötur eins og Mozart orðaði það. Af þeim er D-dúr sónatan sú eina sem komst á blað og þykir hún rísa einna hæst af píanósónötum hans.
Franz Liszt samdi Dante sónötuna þegar hann dvaldi á Ítalíu á árunum 1837-1839, en umskrifaði hana tíu árum síðar. Sónatan er samin eins og nafnið gefur til kynna eftir að tónskáldið hafði lesið verk Dantes, „Hinn guðdómlegi gleðileikur“. Þetta er svokölluð prógrammtónlist en í verkinu lýsir Liszt þeim áhrifum sem hann verður fyrir af lestri ferðasögu Dantes til himnaríkis og undirheima helvítis.