Umdæmi héraðsdýralækna verða fimm
Í dag verður umdæmum héraðsdýralækna Matvælastofnunar fækkað úr sex í fimm. Vesturumdæmi er skipt upp, þannig að Snæfellsnes og Borgarfjörður tilheyra nú S-Vesturumdæmi og Dalir og Vestfirðir tileyra N-Vesturumdæmi.
Við endurskoðun á fyrirkomulagi dýralæknisþjónustu í dreifðum byggðum landsins fyrr á árinu var ákveðið að fækka héraðsdýralæknum samhliða verkkaupum af dýralæknum í dreifðum byggðum. Fyrri áfangi er nú stiginn sem er fækkun úr sex umdæmum í fimm og seinni áfangi verður stiginn á næsta ári og þá fækkað í fjögur umdæmi.
Skrifstofa Matvælastofnunar á Hvanneyri verður áfram rekin þar samhliða skrifstofu umdæmisins í Hafnarfirði. Skrifstofa N-Vesturumdæmis er áfram á Sauðárkróki, en samhliða rekur Matvælastofnun skrifstofu fiskeldismála á Ísafirði.
Umdæmin eru nú þessi:
- Suðvesturumdæmi: Akraneskaupstaður, Borgarbyggð, Eyja- og Miklaholtshreppur, Garðabær, Grindavíkurbær, Grundarfjarðarbær, Hafnarfjarðarkaupstaður, Helgafellssveit, Hvalfjarðarsveit, Kjósarhreppur, Kópavogsbær , Mosfellsbær, Reykjanesbær, Reykjavíkurborg, Seltjarnarnesbær, Skorradalshreppur, Snæfellsbær, Stykkishólmsbær, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Vogar.
- Norðvesturumdæmi: Akrahreppur, Árneshreppur, Blönduósbær, Bolungarvíkurkaupstaður, Dalabyggð, Húnavatnshreppur, Húnaþing vestra, Ísafjarðarbær, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur, Skagabyggð, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Sveitarfélagið Skagafjörður, Sveitarfélagið Skagaströnd, Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.
- Norðausturumdæmi: Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Langanesbyggð, Norðurþing, Skútustaðarhreppur, Svalbarðshreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Tjörneshreppur og Þingeyjasveit.
- Austurumdæmi: Borgarfjarðarhreppur, Djúpavogshreppur, Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Sveitarfélagið Hornafjörður og Vopnafjarðarhreppur.
- Suðurumdæmi: Ásahreppur, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerðisbær, Mýrdalshreppur, Rangárþing eystra, Rangárþing ytra, Skaftárhreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur, Sveitarfélagið Árborg, Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabær.