Tilkynning varðandi nýtt fyrirkomulag á greiðslum húsnæðisbóta (áður húsaleigubætur)
Þann 1. janúar 2017 taka gildi lög nr. 75/2016 um húsnæðisbætur og falla þá úr gildi lög nr. 138/1997 um húsaleigubætur. Markmið nýju laganna er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda með greiðslu húsnæðisbóta vegna leigu á íbúðarhúsnæði og draga úr aðstöðumun á húsnæðismarkaði.
Sveitarfélögin hafa hingað til annast afgreiðslu húsaleigubóta til einstaklinga en frá 1. janúar 2017 munu eldri umsóknir um húsaleigubætur falla úr gildi og mun Vinnumálastofnun annast afgreiðslu húsnæðisbóta frá þeim tíma. Sveitarfélögin munu áfram annast afgreiðslu sérstaks húsnæðisstuðnings (áður sérstakar húsaleigubætur).
Umsóknum um húsnæðisbætur ber að beina til Vinnumálastofnunar til þess að geta átt rétt á greiðslu húsnæðisbóta frá 1. janúar 2017. Vakin er athygli á að umsóknarferli varðandi húsnæðisbætur hjá Vinnumálastofnum er rafrænt.
Frekari upplýsingar varðandi húsnæðisbætur má nálgast á heimasíðunni www.husbot.is og hjá Vinnumálastofnun.
Athugið að umsóknarfrestur vegna nk. janúarmánaðar er til 20. janúar 2017.
Helstu breytingar með nýjum lögum um húsnæðisbætur
Helsta breytingin felst í því að grunnfjárhæð húsnæðisbóta hækkar eftir því sem fleiri eru í heimili óháð aldri. Þá getur foreldri sem fær barnið sitt til sín að lágmarki í 30 daga á ári skráð barnið sitt sem heimilismann jafnvel þó barnið sé með lögheimili hjá hinu foreldrinu.
Einnig eru húsnæðisbætur bæði tekju- og eignatengdar þannig að allar tekjur og eignir umsækjanda og heimilismanna sem eru 18 ára eða eldri eru lagðar saman og mynda þannig samanlagðan tekjustofn og samanlagðan eignastofn sem koma til lækkunar húsnæðisbóta ef þeir eru hærri en frítekjumörkin. Frítekjumörkin hækka líka eftir því hversu margir eru í heimili. Húsnæðisbætur geta mest numið 75% af leiguupphæð.
Frekari upplýsingar varðandi húsnæðisbætur, umsóknarferlið og umsóknareyðublöð má nálgast á heimasíðunni www.husbot.is og hjá Vinnumálastofnun.