Nú þegar ný sveitarstjórn hefur tekið við er vert að óska þeim til hamingju með kjörið og þakka fráfarandi fulltrúum fyrir það liðna
Ég hef verið svo lánsamur að fá að starfa í þágu Eyjafjarðarsveitar í nærri fjögur ár núna og hefur verið boðið að halda áfram því gjöfula starfi, það er mikill heiður að vera sýnt slíkt traust.
Á borð sveitarstjóra koma málefni sem eru allt á milli himins og jarðar, starfið er ótrúlega fjölbreytt og eru fátíðir þeir dagar þar sem ekki bíða fjöldi verkefna úrvinnslu. Verkefni sem spanna allan skalann og eru allt frá því að vera léttvæg og í það að vera verulega krefjandi og flókin í vinnslu. En það er svo gott og gaman frá því að segja að þrátt fyrir ýmis erfið verkefni þá hefur allan tímann verið bæði gott og ánægjulegt að vinna með sveitarstjórn. Það hefur verið létt yfir fundum, sveitarstjórnarfulltrúar yfirvegaðir og vel undirbúnir, tilbúnir til að slá á létta strengi þegar við á og það sem best er að samvinna hefur einkennt starf sveitarstjórnar á undanförnu kjörtímabili. Listarnir tveir unnu þétt og faglega saman að öllum þeim málum sem á þeirra borð komu.
Tveir aðilar gáfu ekki kost á sér áfram til setu í sveitarstjórn, þau Jón Stefánsson fráfarandi oddviti sveitarstjórnar og Halldóra Magnúsdóttir og vil ég þakka þeim sérsaklega fyrir ánægjulegt samstarf. Jón sat í oddvitasæti sveitarstjórnar og hefur svo sannarlega unnið að hag samfélagsins á mjög óeigingjarnan hátt og varið stórum hluta af sínum tíma til starfsins. Við höfum átt frábært samstarf og mörg og góð samtöl um hin ýmsu mál sem upp hafa komið hvort sem þau rata inn til afgreiðslu sveitarstjórnar eða ekki. Halldóra hefur setið í sveitarstjórn og jafnframt leitt Lýðheilsunefnd, er einstaklega fórnfús og dugleg, brennur fyrir hverslags lýðheilsu og einkennist af skemmtilega léttu og þægilegu lundarfari. Það verður missir af þeim úr sveitarstjórn.
Það er mikil vinna að vera í sveitarstjórn ætli fólk sér að gera það af þeim heilindum og dug sem einkennt hefur starf sveitarstjórnar þann tíma sem ég hef unnið með þeim. Það er því gott að vita til þess að samfélagið okkar sé svo lánsamt að hafa einmitt þessa kosti í þeim aðilum sem sest hafa við borð sveitarstjórnar nú á nýju kjörtímabili, kostir sem búa bæði í nýjum fulltrúum sem og þeim sem fyrir voru.
Ég vil óska nýrri sveitarstjórn Hermanni, Lindu, Kjartani, Berglindi, Ástu, Sigríði og Sigurði til hamingju. Þetta er sérlega flottur hópur af góðu fólki sem mun verða samfélaginu öllu til framdráttar og sóma.
Mér þykir gott að vita af sveitarfélaginu okkar í þessum góðu höndum.
Finnur Yngvi Kristinsson
Sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar