Vegna hertra sóttvarnaraðgerða verður starfsdagur í Hrafnagilsskóla á morgun, mánudaginn 2.nóvember. Tilkynning þess efnis var send foreldrum í kjölfar blaðamannafundar ríkisstjórnar á föstudag.
Hér er tilkynningin frá Hrafnagilsskóla:
„Komið þið sælir kæru foreldrar og forráðamenn.
Hér í viðhengi fáið þið bréf vegna hertra sóttvarnarreglna sem við biðjum alla um að lesa.
Á mánudaginn er starfsdagur í Hrafnagilsskóla sem er settur til að skipuleggja skólastarfið í ljósi breyttra aðstæðna. Við munum gera allt sem við getum til að halda úti skólastarfi og geta áfram tekið á móti öllum nemendum. Við lítum björtum augum til þess að finna lausnir á mánudaginn til að nemendur geti haldið áfram að mæta í skólann.
Bestu kveðjur,
Björk og Hrund“
Í bréfinu til foreldra kemur fram að skólastarfið taki nokkrum breytingum og að starfseminni verði skipt aftur upp í þrennt líkt og var síðastliðið vor. Kennsla í blönduðum hópum mun ekki verða og íþrótta- og sundkennsla fellur niður ásamt valgreinum, þá verður að öllum líkindum grímuskylda í skólabílum og jafnvel víðar innan skólans.
Samkvæmt upplýsingum frá ráðherra og sambandi íslenskra sveitarfélaga munu nánari reglur um skólahald berast sveitarstjóra og skólastjórnendum síðar í dag og verður í framhaldinu lögð lokahönd á skipulag skólastarfs Hrafnagilsskóla.