Víðavangssýningin Staðfugl-Farfugl hefur nú staðið í einn og hálfan mánuð og hefur gengið vonum framar. Mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína fram í fjörð til að skoða verkin og nýtt sér
í leiðinni þá þjónustu sem er í boði á svæðinu. Í flestum tilvikum hafa verkin fengið að vera í friði en
þó hafa tvö þeirra orðið fyrir barðinu á skemmdarvörgum.
Fyrst má nefna verk Áslaugar Thorlacius sem var eyðilagt aðeins nokkrum dögum eftir uppsetningu en þá vóru vínflöskum,uppistöðunni í verkinu, stolið. Þeir sem í hlut áttu þurftu að hafa heilmikið fyrir þessu en flöskunum var pakkað í loftþéttar umbúðir sem voru skrúfaðir við rafmagnsstaura hjá Syðra-Laugalandi. Eftir stóðu nokkrir pokar af mjólkurfernum en þeir voru síðan rifnir af staurunum og hent inní runna rétt hjá og er þetta verk því gjörsamlega ónýtt.
Hitt verkið sem hefur ekki fengið að vera í friði er annar Ruslaskarfanna sem börnin í leikskólanum Iðavöllum bjuggu til úr “fundnum hlutum”. Fuglinn var bæði hálshöggvinn og stélklipptur en eftir smá lagfæringu er fuglinn upprisinn aftur og hefur fengið nýtt nafn, Rusli-Rauðháls. Stuttu síðar var tilkynnt að einhver hefði dundað sér við að rífa niður póstkassa með sýningarbæklingunum á upplýsingaskiltinu við Eyjafjarðarbraut vestri og dreift þeim út um allan veg. Okkur til happs þá týndi þessi hirðusamur vegfarandi bæklingana saman og kunnum við honum bestu þakkir fyrir.
Staðfugl-Farfugl lifir nokkuð sjálfstæðu lífi þessa dagana og verður ekki um fleiri uppákomur að ræða á næstunni en í ágúst verða fleiri viðburðir sem auglýstir verða sérstaklega.