Eyjafjarðarsveit og Minjasafnið á Akureyri hafa gert með sér samning um rekstur Smámunasafnsins út árið. Smámunasafnið verður opið í sumar frá 22. júní til 20. ágúst frá miðvikudegi til sunnudags klukkan 13:00-17:00.
Í umræðunni um Smámunasafnið komu upp margar góðar hugmyndir og við ætlum að grípa a.m.k. eina þeirra í sumar. Til stendur að halda sýningar í suðursal Smámunasafnsins og heldur Samúel Jóhannsson, myndlistarmaður úr Eyjafjarðarsveit, fyrstu sýninguna. Í haust verður Minjasafnið með sýningu á ljósmyndum og gripum sem safnið varðveitir en eiga uppruna sinn í Eyjafjarðarsveit. Þetta gerum við í góðu samkomulagi við núverandi húseigendur.
Sigríður Rósa, verður í brúnni í sumar, en þar sem Minjasafnið tók við safninu með skömmum fyrirvara vantar fólk í afleysingu. Þá eru allir þeir sem lýstu áhuga á áframhaldandi opnun Smámunasafnsins velkomnir til að aðstoða okkur við að halda safninu opnu.
Áhugasamir geta haft samband við Harald Þór á Minjasafninu – 462-4162 eða í tölvupósti minjasafnid@minjasafnid.is.