Í dag skrifuðu Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, og Viðar Helgason, stjórnarmaður í Ölduhverfi ehf., undir samning um uppbyggingu um 200 íbúða hverfis í landi Ölduhverfis að Kroppi.
Uppbygging á Kroppi, sem er í norðurjaðri Hrafnagilshverfis, fellur vel að stefnu sveitarfélagsins um uppbyggingu í og við byggðarkjarnann en með samningum er tryggt að um nægt framboð á húsnæði verður að ræða á svæðinu til komandi ára.
Að sögn Viðars er um að ræða lága byggð með eins til tveggja hæða húsum þar sem allar íbúðir hafa fallegt útsýni yfir sveitina. Þá er hverfið umlukið gróðri en á svæðinu hefur verið ráðist í um 100 hektara skógrækt og því útivist með besta móti beint úr byggðinni.
Í Hrafnagilshverfi eru nú um 80 íbúðir og liggur fyrir að þær muni ríflega tvöfaldast með nýju deiliskipulagi Hrafnagilshverfis sem nú er að fara í auglýsingu. Er þar gert ráð fyrir lágreistri byggð sem samræmist vel þeim karakter sem Hrafnagilshverfi stendur fyrir í dag auk notalegra útisvæða í faðmi gróðurs.
Þegar uppbygging Ölduhverfis verður lokið auk þeirra svæða sem byggja á í Hrafnagilshverfi má reikna með að á svæðinu verði um 400 íbúðir í boði og þar muni búa allt að því 900 íbúar.
Ölduhverfi ehf. gerir ráð fyrir að hefja uppbyggingu á svæðinu síðari hluta ársins 2022 en uppbyggingin fer fram í um það bil 50 íbúða áföngum.
Útsýni frá íbúðum Ölduhverfis