Í dag skrifuðu sveitarstjóri, Finnur Yngvi Kristinsson, og Bergþór Erlingsson fyrir hönd SBA-Norðurleiðar hf. undir samning um skólaakstur fyrir Hrafnagilsskóla til næstu þriggja ára.
Fyrirtækið SBA-norðurleið hefur séð um skólaakstur undanfarna mánuði eða allt frá því Hópferðabílar Akureyrar fóru í gjaldþrot. Unnið hefur verið að útboði frá þeim tíma í samvinnu við Ríkiskaup sem sá um útboðið fyrir hönd Eyjafjarðarsveitar.
SBA-Norðurleið hf. er rótgróið fyrirtæki sem hóf starfsemi undir nafninu Sérleyfisbílar Akureyrar hf. árið 1980. Árið 2001 keypti fyrirtækið rekstur Norðurleiðar-Landleiða sem starfað hafði frá árinu 1951 og síðar sama ár sameinaðist fyrirtækið og hópferðadeild BSH ehf. á Húsavík undir merkjum SBA-Norðurleiðar hf.