Staða landbúnaðar og matvælaframleiðslu við Eyjafjörð
Landbúnaður og matvælaframleiðsla eru ein meginstoð byggðar við Eyjafjörð og nágrenni.
Svæðið er eitt öflugasta svæði landsins í frumframleiðslunni, mjólkur og kjötframleiðslu,
ásamt fóðuriðnaði og öflugum úrvinnslufyrirtækjum bæði í mjólk og kjöti. Þá er einnig á
svæðinu fjölda fyrirtækja sem þjónusta greinina. Svæðið er þvi einnig eitt mikilvægasta svæði
landsins þegar kemur að því að uppfylla stefnu þjóðarinnar varðandi matvælaframleiðslu og
matvælaöryggi.
Ef tekin eru störf í landbúnaði á svæðinu ásamt úrvinnslufyrirtækjunum í mjólk og kjötiðnaði,
fóðurframleiðslu og helstu aðilum í þjónustu við landbúnaðinn má gróflega áætla að
samanlögð ársvelta þessara greina sé ekki undir 28 milljörðum króna og rétt tæplega 1.000
starfi við greinina.
Nýgerður milliríkjasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) um viðskipti með
búvörur og gagnkvæma niðurfellingu tolla á þeim vekur ugg varðandi framtíðarhorfur
landbúnaðar og matvælaiðnaðar hér. Auk þess er þessi samningur gerður án samráðs eða
samtala við hagsmunaaðila í greininni og í algjörri andstöðu við gildandi samninga um
starfskilyrði greinarinnar sem og stefnu stjórnvalda um matvælaframleiðslu landsins.
Er það mat okkar að afnám tolla í þeim mæli sem samningarnir geri ráð fyrir geti haft
ófyrirséðar afleiðingar fyrir landbúnað og matvælavinnslu á Íslandi. Augljósust eru áhrifin
sem strax myndi gæta í alifugla- og svínarækt, en veiking þeirra greina myndi síðan strax hafa
áhrif inní mjólkur og kjötgreinarnar þar sem m.a. fóðurframleiðsla og slátrun og úrvinnsla
yrði óhagkvæmari eftir og önnur þjónusta við landbúnainn einnig dýrari.
Við getum ekki ætlað íslenskum landbúnaði og matvælavinnslu að standast opna samkeppni
við massaframleiðslu matvæla, sem oft eru af allt öðrum og lakari gæðum og framleidd í allt
öðru efnahagsumhverfi en okkar. Efnahafsumhverfi þar sem verðlag er lægra og laun og
annar framleiðslukostnaður því einnig lægri.
Markmið okkar er að framleiða matvæli af hæstu gæðum, sem byggja á hreinleika og gæðum
landsins, landbúnaði og matvælavinnslu í sátt við umhverfi sitt. Matvörur sem eru hollari en
gengur og gerist. Slíkar matvörur eiga einnig að eiga sóknarfæri á alþjóðamarkaði með
síaukinni eftirspurn eftir öruggum og heilnæmum matvælum. Markmið þjóðarinnar er einnig
að vera sjálfri sér nóg um öll helstu matvæli og skapa þannig öryggi í fæðuöflun.
Ótalin eru einnig fjölmörg önnur samfélagsáhrif af samdrætti í landbúnaði á landsbyggðinni.
Ástæða er þó til að nefna sérstaklega að landbúnaðurinn sem grunnur að byggð á
landsbyggðinni er ein af grunnforsendum þess að ferðaþjónustan getur vaxið og dafnað.
Með slíkum aðgerðum eins og þessum tollalækunum nú er því verið að kasta á glæ
gríðarlegum verðmætum og afleiðingarnar fyrir samfélagið geta verið mjög miklar.
Að farið sé í slíkar aðgerðir undir því yfirskini að þetta eigi að vera neytendum til góða þar
sem matvælaverð muni lækka eru lítil rök, því fátt bendir til þess í dag að slíkt muni leiða til
lægra verðs til lengri tíma litið. Miklar efasemdir eru einnig þegar komnar fram um að slíkt
muni yfir höfuð skila sér útí verðlagið.
Stefna stjórnavalda um landbúnað er einnig skýr, en þar segir meðal annars „Ríkisstjórnin
lítur á landbúnað sem eina af mikilvægustu atvinnugreinum framtíðarinnar. Vaxandi
eftirspurn eftir mat á heimsvísu skapar íslenskum landbúnaði sóknarfæri með möguleikum á
aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum. Ríkisstjórnin mun gera íslenskum
landbúnaði kleift að nýta þau sóknarfæri sem greinin stendur frammi fyrir. Með það fyrir
augum er brýnt að kanna með hvaða hætti er unnt að auka verðmætasköpun og nýta sem
best tækifærin sem felast í sveitum landsins“.
Við skorum því á þingmenn að taka málið upp og að þessir samningar verði
ekki staðfestir af Alþingi nú, en þess í stað einbeiti menn sér að því strax á
haustþingi að undirbúa nýja samninga um starfsskilyrði landbúnaðarins til
lengri tíma, en núverandi samningar (búvörusamningur) renna út í lok næsta
árs. Tollamál eru og hafa verið hluti af þeim samningum og því rökrétt að
ákvarðanir um breytingar á þeim verði teknar samhliða gerð nýrra samninga
við greinina til lengri tíma.
Nokkrar staðreyndir um matvælavinnslu á Íslandi:
• Skv. Hagstofu Íslands var velta kjötiðnaðar, mjólkuriðnaðar og fóðurframleiðslu á
landsvísu 91,4 milljarðar árið 2014.
• Skv. Hagstofu Íslands var velta matvælaframleiðslu án fiskvinnslu 127,5 milljarðar á
landsvísu árið 2014.
• Vinnsla á mjólkur- og kjötafurðum er umfangsmikil atvinnustarfsemi í landinu. Áætluð velta í
greininni er um 60 milljarðar og gróflega áætlað starfa milli tvö og þjú þúsund manns í
afurðastöðvum í mjólkur- og kjötiðnaði (Heimild SI)
• Matvælaiðnaður á Íslandi er ein af stærstu undirgreinum iðnaðarins með rúm 17% af
heildarveltu í iðnaði. Þá er fiskvinnsla ekki talin með. Í matvælaiðnaði störfuðu á
síðasta ári um 4000 manns sem nemur 12,7% af störfum í iðnaði eða 2,9% af
heildarvinnuafli í landinu (Heimild SI).
Samantekið: HK-27-09-2015