Sá einn veit er víða ratar

Fréttir
Sveitarstjórnir Eyjafjarðarsveitar og Svalbarðsstrandahrepps
Sveitarstjórnir Eyjafjarðarsveitar og Svalbarðsstrandahrepps

Sveitarstjórnir Eyjafjarðarsveitar og Svalbarðsstrandarhrepps heimsóttu hvor aðra síðastliðinn þriðjudag til að kynna sér innviði sveitarfélaganna og bera saman bækur. Tilgangur samneytisins var að skrafa um sameiginlega hagsmuni, aukið samstarf, sameiningarmál og hvað slíkt myndi þýða fyrir sveitarfélögin.

Umræður á fundinum voru góðar og voru ráðgjafarnir Róbert Ragnarsson og Jón Hrói Finnsson frá RR Ráðgjöf með hópnum. Þeir fóru yfir hvernig ferli sameininga getur litið út og að hverju þarf að huga í slíkum samræðum.

Sveitarstjórnirnar voru sammála um mikilvægi þess að samtal eigi sér stað hvort sem það leiðir til formlegra viðræðna síðar meir, aukins samstarfs sveitarfélaganna, þátttöku fleiri sveitarfélaga eða óbreytts fyrirkomulags. Sveitarfélögin tvö eru þegar í miklu og góðu samstarfi með Hörgársveit og Grýtubakkahreppi um ýmis mál og öll eiga þau mikið og gott samstarf við Akureyrarbæ í mörgum málum.

Engin stefna hefur verið sett um framhaldið eða hvort formlegar viðræður muni eiga sér stað en kostir þess og gallar verða þó ræddir í hvoru sveitarfélagi fyrir sig. Sveitarstjórnirnar voru sammála um mikilvægi þess að hafa íbúa sveitarfélaganna með í þeim vangaveltum, skrefum eða ákvörðunum sem mögulega verða teknar í þessari vegferð.