Með tilkomu laga nr 43, 13.maí 2024 varðandi breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007 varð óheimilt að veita rekstrarleyfi innan þéttbýlis nema í samþykktu atvinnuhúsnæði. Áhrif þessara laga er nú farið að gæta í aukinni eftirspurn eftir rekstrarleyfi í íbúðarbyggð utan þéttbýlis en slíkar byggðir má finna víða í Eyjafjarðarsveit.
Til að viðhalda þeim einkennum sem skipulag íbúðarbyggðar er ætlað að skapa hefur sveitarstjórn ákveðið að marka nýja stefnu um starfsemi sem þarf leyfi skv. lögum 85/2007 og setja reglur um útgáfu slíkra leyfa til samræmis við lög um útgáfu slíkra leyfa í þéttbýli. Með því verður litið svo á að rekstur veitingastaða, gististaða og skemmtanahalds samræmist ekki skipulagi íbúðarbyggðar nema skipulagið kveði svo sérstaklega á um og felur það í sér breytingu frá fyrri framkvæmd þar sem fram til þessa hefur ekki verið lagst gegn minniháttar gistirekstri í einstaka fasteignum.
Fyrir fundinum liggur minnisblað frá Lögmannsstofu Norðurlands vegna málsins með drögum um reglur vegna útgáfu rekstrarleyfa fyrir starfsemi í íbúðarbyggð í Eyjafjarðarsveit.
Á fundi sínm þann 21.nóvember samþykkti sveitarstjórn samhljóða eftirfarandi:
Reglur vegna útgáfu rekstrarleyfa fyrir starfsemi í íbúðarbyggð í Eyjafjarðarsveit.
Markmið þessara reglna er að marka verklag og setja viðmið um afgreiðslu umsagna til sýslumanns um atvinnustarfsemi á svæðum sem í skipulagsáætlunum eru skilgreind sem svæði fyrir íbúðabyggð. Með reglunum birtast áherslur sveitarstjórnar um hvernig skuli fjalla um mál þegar beiðni berst frá sýslumanni um umsögn um rekstrarleyfi á grundvelli laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.
1. gr.
Starfsemi sem til þarf rekstrarleyfi samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 er óheimil á svæðum sem skilgreind eru sem íbúðabyggð í skipulagsáætlunum sveitarfélagsins sem settar eru samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010.
2. gr.
Í umsögn sem sýslumaður biður um á grundvelli laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 vegna umsóknar um rekstrarleyfi fyrir gististarfsemi eða aðra rekstrarleyfisskylda starfsemi samkvæmt lögunum sem fyrirhuguð er á svæði, sem í skipulagsáætlun er skilgreint fyrir íbúðarbyggð, skal sveitarstjórn mæla gegn útgáfu nýs rekstrarleyfis, nema skipulagsskilmálar heimili sérstaklega tilgreinda starfsemi á íbúðasvæðinu. Sveitarstjórn tekur ákvörðun um hverja umsagnarbeiðni sem berst með rökstuddum hætti í samræmi við stjórnsýslulög og aðrar stjórnsýslureglur.
Sveitarstjóri, skrifstofustjóri og skipulagsfulltrúi hafa hver fyrir sig heimild til að svara umsagnarbeiðni Sýslumanns fyrir hönd sveitarstjórnar án sérstakrar umfjöllunar sveitarstjórnar þar sem ekki er sérstaklega getið um undanþágu í deiliskipulagi viðkomandi íbúðarsvæðis enda byggi sú umsögn á reglum þessum. Kynna skal slíka umsögn á næsta fundi sveitarstjórnar.
3. gr.
Verði jákvæð umsögn veitt með skilyrðum, skal vekja athygli sýslumanns á þeim skilyrðum og skulu þau koma fram í rekstrarleyfi.
4. gr.
Vinnureglur þessar taka gildi þegar í stað og gilda um beiðnir um rekstrarleyfi sem berast leyfisveitanda eftir gildistöku reglnanna.
Þannig samþykkt á fundi sveitarstjórnar, dags. 21. nóvember 2024.