Fréttin var sótt á síðu Skólaþróunar.is https://skolathroun.is/olof-asa-benediktsdottir/
"Ólöf Ása Benediktsdóttir er kennari við Hrafnagilsskóla en hún hefur kennt þar síðan 2005, einkum á unglingastigi. Skólaárið 2016-2017 var hún aðstoðarskólastjóri en auk þess hefur hún sinnt stigstjórn á unglingastigi til margra ára. Ólöf Ása hefur aðallega kennt íslensku og stærðfræði auk náttúrufræði og valgreina. Hún hefur tekið þátt í fjölda þróunarverkefna, meðal annars um fjölbreyttar kennsluaðferðir, námsmat, læsi og samþættingu námsgreina. Heilsuefling hefur verið hugðarefni hennar undanfarin ár og má þar meðal annars nefna vinnu með sjálfsmynd unglinga, slökun, hugarró og félagsfærni.
Í tillögu að tilnefningu hennar segir:
Það er þannig með örfáa kennara að ekki er auðvelt að færa í orð í hverju snilli þeirra felst. Ása hefur frá byrjun síns kennaraferils náð að glæða áhuga barna á námi sem og viðfangsefnum hversdagsins. Samskipti eru henni hugleikin og hún er einn af þeim kennurum sem varla þarf að leita til stjórnenda með nemenda- eða foreldramál. Ása leysir það sem fer í hnút en sérstaklega er hún fær í því að koma í veg fyrir að hnúturinn herðist. Þegar kennari hefur óbilandi trú á hæfni allra nemenda, er vingjarnlegur og hvetjandi en gerir engu að síður kröfur og setur mörk þá er margt unnið. Þetta hefur Ása. Síðast en ekki síst þá er hún faglega sterk í þeim námsgreinum sem hún kennir, kennslufræðin er innbyggð í allt og grunnþættir menntunar liggja að baki öllu sem gert er. Í einu orði sagt: framúrskarandi."