Kynningarfundur vegna aðal- og deiliskipulagstillaga á vinnslustigi fyrir fyrirhugaða uppbyggingu Ölduhverfis í landi Kropps fór fram í matsal Hrafnagilsskóla fimmtudagskvöldið 17. nóvember. Fulltrúar sveitarfélagsins kynntu skipulagsverkefnið sem í vinnslu er auk þess sem Sigurður Einarsson arkitekt kynnti deiliskipulagstillöguna.
Í aðalskipulagstillögunni felst að byggingarheimildir á íbúðarsvæði ÍB8 í landi Kropps eru auknar úr 80-100 íbúðum í 213 íbúðir. Auk þess koma í aðalskipulagstillögunni fram skilmálar um íbúðargerðir, yfirbragði byggðar og áfangaskiptingu uppbyggingar á svæðinu. Í deiliskipulagstillögunni eru skilgreindar lóðir fyrir alls 23 fjölbýlishús, 15 raðhús og 8 einbýlishús. Lóðirnar skiptast upp í fjóra framkvæmdaráfanga upp á 50-60 íbúðir. Deiliskipulagstillagan gerir einnig grein fyrir vegtengingu íbúðarsvæðisins við götu- og stígakerfi Hrafnagilshverfis og staðsetningu hreinsivirkis fráveitu.
Kynningargögn sem sýnd voru á fundinum eru nú aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins, sjá hlekki að neðan. Almenningur og aðrir hagsmunaaðilar hafa nú frest til 1. desember 2022 til kynna sér skipulagstillögurnar og koma sjónarmiðum sínum varðandi tillögurnar á framfæri við sveitarfélagið. Skipulagsgögnin liggja einnig frammi á sveitarskrifstofunni og þar er unnt að spyrja fulltrúa sveitarfélagsins nánar út í skipulagsáformin.
Ábendingar og athugasemdir vegna skulu berast skriflega ekki síðar en fimmtudaginn 1. desember 2022 til skipulagsfulltrúa í tölvupósti á netfangið sbe@sbe.is eða með bréfpósti til Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar bs., Skólatröð 9 Hrafnagilshverfi, 605 Akureyri.
Að kynningartímabili loknu verður hafist handa við að fullmóta skipulagstillögurnar með hliðsjón af þeirri endurgjöf sem berst á kynningartímabilinu. Þegar fullmótaðar skipulagstillögur hafa verið afgreiddar í sveitarstjórn verða þær auglýstar í fjölmiðlum og á heimasíðu sveitarfélagsins í sex vikur og þá gefst almenningi og öðrum hagsmunaaðilum aftur færi á að koma athugasemdum vegna skipulagstillaganna á framfæri við sveitarfélagið.
Skipulagsfulltrúi.
Glærur sem arkitekt sýndi á kynningunni