Nýtt deiliskipulag fyrir Hrafnagilshverfi tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda föstudaginn 11. nóvember síðastliðinn. Skipulagsgögn í endanlegri mynd má sjá í hlekk hér að neðan og á síðunni esveit.is/is/stjornsysla/skipulags-og-byggingarmal/deiliskipulag . Í deiliskipulaginu eru skilgreindar íbúðarlóðir fyrir 88 til 93 nýjar íbúðir sem skiptast í 41 einbýlishús, 27 til 32 íbúðir í raðhúsum og 20 íbúðir í fjölbýlishúsum, þar af 12 íbúðir fyrir aldraða í viðbyggingu við fyrrum heimavist Hrafnagilsskóla. Í deiliskipulagstillögunni er einnig mörkuð stefna um yfirbragð byggðar, stíga- og götukerfi og útivistarsvæði. Gert er ráð fyrir nýrri íbúðargötu sunnan Skólatraðar (merkt gata E) auk þess sem ráðgert er að breyting verði á tengingu Ártraðar og Bakkatraðar við götukerfi hverfisins. Auk þess eru skilgreindar 23 lóðir fyrir rað- og einbýlishús við nýja íbúðargötu norðan Bakkatraðar (merkt gata C), en þær lóðir verða þó ekki byggingarhæfar fyrr en búið er að byggja landið upp í svipaða hæð og Bakkatröð. Loks eru skilgreindar fjórar athafnalóðir á landi gróðrarstöðvarinnar Grísarár og verður uppbygging þeirra á höndum landeigenda.
Fyrstu nýju byggingarlóðirnar í skipulaginu hafa þegar verið auglýstar til úthlutunar en það eru einbýlishúsalóðir við Eyjafjarðarbraut vestan Bakkatraðar og einbýlis-, raðhúsa- og fjölbýlishúsalóðir í nýrri íbúðargötu sunnan Skólatraðar.
Vinna við gerð deiliskipulagsins hófst á vormánuðum 2020 og tóku íbúar sveitarfélagsins, landeigendur og aðrir hagsmunaaðilar ríkan þátt í mótun skipulagsins með samráði gegnum vinnuferlið. Sveitarfélagið kann þessum aðilum góðar þakkir fyrir sitt framlag til vinnunnar auk þess sem höfundar skipulagsins, Lilja Filippusdóttir og Árni Ólafsson hjá Teiknistofu arkitekta, eiga góðar þakkir skilið fyrir vel unnið starf.
Skipulagsfulltrúi.