Merk tímamót í sögu Gásaverkefnisins

verslun_120
Sjálfseignastofnunin Gásakaupstaður ses var stofnuð fimmtudaginn 6.desember á Minjasafninu á Akureyri. Að stofnuninni standa Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Gásafélagið, jarnsmidur_120 Grýtubakkahreppur, Hörgárbyggð, Minjasafnið á Akureyri, Svalbarðsstrandarhreppur og Laufáshópurinn (Gásahópurinn).
Við þetta merka tækifæri veittu bæði Fjárfestingarbankinn Saga Capital og KEA svf stofnuninni styrk sem mun fara í uppbyggingu þjónustu á Gásum strax á næsta ári.
Gásakaupstaður, sem eru friðlýstar fornleifar í umsjá Fornleifaverndar ríkisins, er 11 km norðan við Akureyri. Hvergi á Íslandi eru varðveittar jafnmiklar mannvistarleifar frá verslunarstað frá miðöldum eins og á Gásum, en Gásakaupstaður var helsti verslunarstaður á Norðurlandi um tíma. Frá árunum 2001 -2006 stóð yfir viðamikil fornleifarannsókn sem gaf margar fornvitnilegar niðurstöður sem ýttu enn frekar undir hugmyndavinnu varðandi uppbyggingu þjónustu á svæðinu. Hugmyndirnar að uppbyggingunni eru mótaðar til þess að vernda fornleifarnar og miðla með skemmtilegum og fróðlegum hætti sögu og náttúru staðarins á faglegan hátt. Hugmyndirnar felast m.a. annars í því að gera miðaldakaupstaðinn á Gásum lifandi á ný þar sem handverksfólk verður að störfum og leik. Áherslan verður á miðaldir: verslun, viðskipti, handverk og iðnað. Gásir verður um leið afþreyingargarður með menningarlegu ívafi sem byggir á fornleifum, sögu og náttúru staðarins. Byggja á upp spennandi og einstakt leiksvæði í miðaldastíl, reisa þjónustubyggingu, sem hýsa mun framúrskarandi sýningu þar sem skemmtimennt er höfð að leiðarljósi, en hún myndi einnig hýsa minjagripaverslun, veitingasölu, fjölnota sal og síðast en ekki síst veita fræðimönnum á ýmsum sviðum afdrep til rannsókna.
Á næsta ári er ætlunin að setja upp fræðsluskilti og stíga auk þess sem unnið verður að því í samvinnu við Fornleifavernd ríkisins að ganga frá búðartóftunum sem grafið hefur verið í síðustu árin. Í síðustu viku úthlutaði þjóðhátíðarsjóður veglegum styrk til þess að vinna að frágangi og varðveislu á búðartóftunum. Menningarráð Eyþings hefur styrkt stofnunina til þess að skrifa barnabók um Gásir og hefur Brynhildur Þórarinsdóttir, margverðlaunaður barnabókarithöfundur og bæjarlistamaður Akureyrar 2006, tekið það spennandi verkefni að sér. Stefnt er að því að bókin verði tilbúin til útgáfu árið 2009. Næsta sumar nánar tiltekið 19. og 20. júlí mun miðaldakaupstaðurinn lifna við eins og undanfarin ár þegar innlent og erlent handverksfólk kynnir gestum og gangandi lífið á miðöldum. Það eru því margir spennandi hlutir sem ný sjálfseignarstofnun sér fram á vinna með á komandi árum.