Markaðsstofa Norðurlands heimsótti landbúnaðar- og atvinnumálanefnd

Fréttir
Landbúnaðar- og atvinnumálanefnd ásamt Birni frá MN
Landbúnaðar- og atvinnumálanefnd ásamt Birni frá MN

Við fengum skemmtilega heimsókn frá Markaðsstofu Norðurlands í landbúnaðar- og atvinnumálanefnd í gær þar sem upplýsandi og skemmtileg umræða átti sér stað meðal annars um verkefni sem ber verkheitið Farmers route of North Iceland og uppbyggingu heilsársferðaþjónustu á norðurlandi.

Björn, verkefnastjóri áfangastaðaáætlunar og rannsókna, hjá MN kynnti starfsemi markaðsstofunnar fyrir nefndarmönnum og þá miklu vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum árum fyrir norðurland en starfsvæði markaðsstofunnar er gríðarlega stórt og nær allt frá Borðeyri í Hrútafirði að vestan að Bakkafirði í austri. Fengu fundarmenn að bera augum nýtt örmyndband sem fer í dreifingu eftir áramót en markaðsstofan hefur látið vinna slík myndbönd fyrir öll sveitarfélög í sínu umdæmi til dreifingar. 

Verkefnið Farmers Route (vinnuheiti) er mjög spennandi og kviknaði hugmynd þess út frá vel heppnuðu verkefni Arctic Coast Way (Norðurstrandarleið) þar sem áherslan yrði á sveitirnar og þá fjölmörgu möguleika sem henni fylgja. Það verður spennandi að fylgjast með þessu áframhaldi og mögulega taka þátt í því ásamt því mikilvæga verkefni, heilsársferðaþjónusta á norðurlandi.

Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar vinnur nú að því að endurbyggja heimasíðu ferðamálafélagins í samvinnu við markaðsstofuna sem hýsir síðuna á sínu vefsvæði. Þar er verið að endurnýja efni og myndir en einnig er MN að kalla eftir upplýsingum um gönguleiðir og annað spennandi sem um er að vera í sveitarfélaginu sem hægt er að koma á framfæri. 

 

Bókun fundar nefndarinnar má lesa hér