Lenging Akureyrarflugvallar

Til umhugsunar.
Framkvæmdir við lengingu Akureyrarflugvallar krefjast mikils fyllingarefnis. Það liggur ekki fyrir hvert það efni verður sótt en fastlega má gera ráð fyrir að leitað verið eftir leyfi til að taka það í umdæmi Eyjafjarðarsveitar. Þá koma helst til álita óshólmasvæðin, farvegur Eyjafjarðarár og að líkindum Munkaþveráreyrar. Samkvæmt nýstaðfestu Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005 – 2025 er ekki gert ráð fyrir efnistöku á óshólmasvæðinu nema að undangengnum rannsóknum og úttekt eins og ákvæði er um í skipulagsforsendunu. Sama á í raun við um farveg Eyjafjarðarár þótt náma fyrir landi Vagla sé staðfest í skipulaginu. Sú náma er þó lítil sett í samhengi við efnisþörf vegna flugvallarstækkunarinnar. Í skýrslu Flugstoða og tilkynningu um fyrirhugaða framkvæmd í nóv. 2007 segir á bls. 6 að aðflutt efni til fyllinga og burðarlaga verði samtals 220 þús. rúm. og gert sé ráð fyrir „að þessu efni verði ekið úr opnum námum í nágrenni Akureyrar.“ Hvar eru þessar námur?
Skv. upplýsingum hjá umdæmisstjóra Flugstoða á Akureyri er ekki fyrirhugað að fara á þessu ári í framkvæmdir við flughlöð og slíka aðstöðu þannig að efnisþörfin í fyrsta áfanga verður minni en að framan greinir eða ca. 150 þús. rúmm. Það má gera ráð fyrir að þetta magn skiptist ca. til helminga á milli sands og burðarmeira efnis.
Leikur að tölum:
Ef allt það efni sem nota þarf í fyllingar yrði sótt á Munkaþveráreyrarnar lítur dæmið svona út:
Hver bíll flytur ca. 13 rúmm. í ferð.
Til að flytja 150 þús. rúmm. þarf að fara ca. 11.500 ferðir. Akstursvegalengdin miðað við þann ferðafjölda yrði ca. 310.000 km.
Væntanlega má gera ráð fyrir því að hver bíll eyði ekki innan við 50 l. pr. 100 km. Eldsneytisnotkun yrði því ca. 155 þús. l.

Er ekki ástæða til að þessi mál séu skoðuð nánar og sameiginlega af skipulagsyfirvöldum á Akureyri og í Eyjafjarðarsveit í þeim tilgangi að greiða fyrir því að allt fínna efni til fyllingar verði tegið sem næst framkvæmdastaðnum?

24. jan. 2008
Sveitarstjóri.