Nú á haustdögum varð kvenfélagið Hjálpin í Eyjafjarðarsveit 110 ára. Í kvenfélaginu starfa tuttugu og fjórar konur auk nokkurra heiðursfélaga. Við erum á aldrinum 24 ára til 76 ára og meðalaldur okkar er 48 ár. Við erum vinkonur, nágrannar, bekkjarsystur, systur og í félaginu starfa í dag 3 pör af mágkonum, 3 pör af mæðgum og 5 pör af tengdamæðgum. Í tilefni af 100 ára afmælinu gáfum við út bókina Drífandi daladísir þar sem eru myndir og upplýsingar um allar 231 félagskonurnar ásamt sögu félagsins í máli og myndum.
Í ár var tekin ákvörðun á félagsfundi að styrkja 10 samtök um 110.000 kr hvert, samtals 1.100.000kr. Við ákváðum að einbeita okkur að samtökum sem veita fría þjónustu á Norðurlandi og rákumst á opið málþing sem haldið verður í Háskólanum á Akureyri. Þær Birna Guðrún og Erna Lind halda utan um þennan viðburð „Hver grípur þig? Frí þjónusta á Norðurlandi“ þann 25. nóvember, á upphafsdegi 16 daga átaks gegn ofbeldi. Þar munu samtökin; Aflið, Bergið Headspace, Bjarmahlíð, Grófin Geðrækt, Kvennaathvarfið, Frú Ragnheiður og Píeta kynna starfsemi sína.
En auk þeirra samtaka mun kvenfélagið styrkja Hjálparsveitina Dalbjörg í Eyjafjarðarsveit, Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis og Velferðarsjóð Eyjafjarðarsvæðis.
Með þessu viljum við í kvenfélaginu Hjálpin fagna afmælinu okkar og vekja athygli á kvenfélögum og starfi þeirra um allt land. Konur baka svo sannarlega betra samfélag, bæði fyrir sig sjálfar og aðra. Á sama tíma viljum við styrkja þau samtök sem eru að gera góða hluti í nærsamfélaginu okkar hérna í Eyjafirði og hvetja aðra til styrkja þau líka.
Auður Thorberg formaður, s. 6609034
Nánari upplýsingar um „Hver grípur þig? Frí þjónusta á Norðurlandi“ þann 25. nóvember 2024, er að finna hér á linknum:
https://www.unak.is/is/samfelagid/vidburdir/hver-gripur-thig