Ég vakna að morgni, tölti út og anda að mér fersku lofi froststillunnar, dreg inn orkuna sem liggur yfir öllu og glitrar á hélaðri jörð Eyjafjarðarsveitar.
Samfélagið hér býr yfir miklum krafti sem hefur í gegnum aldirnar byggst upp og mótast af frumkvöðlum bændastéttarinnar. Við sem hér búum í dag njótum góðs af ósérhlífinni vinnu fyrri kynslóða sem lagt hafa mikið af mörkum við að byggja upp sín heimili, sín bú og sína atvinnustarfsemi. Frjósöm jörðin hefur skapað eina allra gjöfulustu sveit landsins, þar sem umtalsvert magn allrar mjólkur í landinu er framleidd. Hér er líka ræktað korn, kartöflur og grænmeti, alin svín, naut, íslenskt sauðfé og veiddur fiskur. Hér er framleiddur ís og hér eru framleiddar sultur og egg, svo fátt eitt sé nefnt. Við getum verið stolt af því ríka hlutverki sem samfélagið gegnir í fæðuöryggi þjóðarinnar og sjálfbærni Íslands þegar að matvælum kemur.
En víða annars staðar en í landbúnaðinum má finna þennan mikla kraft sem einkennir samfélag okkar. Öflugir frumkvöðlar skapa atvinnu í byggingargeiranum og jarðverktöku og fjöldi frumkvöðla gerir út á ferðaþjónustu. Líkt og með mjólkina þá er einnig ólíklegt að finna megi jafn mikið framboð af jóga og annarri heilsubætandi þjónustu fyrir það samfélag sem það þjónar.
Á árinu 2023 voru mikil tíðindi þegar sveitarfélagið ákvað að selja húsnæði sitt að Sólgarði sem hýst hefur Smámunasafn Sverris Hermannssonar. Hjónin Kristján Vilhelmsson og Kolbrún Ingólfsdóttir fjárfestu í húsinu og buðu sveitarfélaginu að hýsa safnið áfram endurgjaldslaust í Sólgarði, auk þess sem Kvenfélagið Hjálpin hefur þar áfram aðstöðu og vinna þau hjón að því að virkja starfsemi í húsinu enn frekar. Tel ég að málefni Smámunasafnsins hafi fengið afar farsæla lausn með stuðningi þeirra hjóna og síðan aukinn vind í seglin þegar hið stórbrotna listaverk eftir Beate Stormo, risakýrin Edda, fékk sinn stað rétt norðan safnsins.
Margir aðrir hafa lagt sitt af mörkum til samfélagsins á undanförnum árum, hvort sem er í uppbyggingu á atvinnustarfsemi, með varðveislu á sögu okkar og minjum eða með því að efla kynningu á staðháttum líkt og ábúendur á Hvammi hafa lagt sig fram við að gera meðfram hjóla- og göngustígnum.
Við búum í góðu og samheldnu samfélagi drifið áfram af frumkvöðlum, í samfélagi þar sem fólk hefur í gegnum tíðina unnið að því að skapa sér grundvöll til að standa styrk á eigin fótum samhliða því að efla samfélagið í heild. Á þeim tíma sem ég hef gengt stöðu sveitarstjóra hef ég oft orðið vitni af þessu hvort sem um er að ræða á vettvangi sveitarstjórnarmála eða óeigingjarnt framlag einstaklinga.
Innan skólanna okkar býr reynslumikill og öflugur mannauður, fólk sem tileinkað hefur störf sín í að leiðbeina og kenna okkar yngstu kynslóð. Ég hef oft gengið um leikskólann og dáðst af þeirri hlýju sem af starfsfólkinu þar geislar og endurspeglast í þeirri umhyggju sem þau veita börnunum okkar gegnum það mikla áreiti sem á leikskóla getur verið. Þó ég vilji ekki tilgreina einn vinnustað sérstaklega þá er ég afar þakklátur því starfsfólki sem á leikskólanum starfar og ber mikla virðingu fyrir þeim sem taka að sér að annast okkar yngsta fólk, kenna því að umgangast hvort annað og undirbúa þau fyrir grunnskólastigið.
Á næstu árum verða miklar breytingar á innviðum sveitarfélagsins en á árinu 2025 mun leikskólinn Krummakot flytja í nýtt og glæsilegt húsnæði sem sambyggt verður grunnskólanum og eykur til mun alla þá möguleika sem starfseminni fylgja. Er þar gert ráð fyrir að hið minnsta 110 börn geti dvalið á hverjum tíma. Þá verður að auki mögulegt að stunda útinám allt árið um kring í glæsilegum glerskála á skólalóðinni sem eykur sveigjanleika starfseminnar enn frekar. Leikskólinn er fyrsta skref í stórbættri aðstöðu á svæðinu en í framhaldi af þeirri byggingu verður haldið áfram að byggja og rís þá stórbætt líkamsræktaraðstaða á efri hæð íþróttamiðstöðvarinnar, ný starfsmannaaðstaða fyrir skólana, ný aðstaða fyrir bókasafn og endurbætt aðstaða fyrir grunnskólanemendur. Í byggingunni verður einnig fallegur nýr salur sem nýtist skólunum og samfélaginu öllu. Þessum viðamiklu framkvæmdum er ætlað að skapa skólunum og samfélaginu stórbætta aðstöðu en stór þáttur framkvæmdanna er líka að skapa okkar frábæra starfsfólki framúrskarandi vinnuumhverfi.
Sveitarfélagið stendur styrkum fótum og er öfundsvert þegar kemur að fjárhagslegri stöðu þess. Ábyrg fjármálastjórn hefur verið höfð að leiðarljósi í mörg ár. Markmið hafa verið sett upp til langs tíma; sveitarstjórn, starfsmenn og íbúar hafa sýnt þolinmæði svo safna megi í sarpinn fyrir stórar framkvæmdir líkt og þær sem nú eru hafnar.
Hér í sveit er öflug félagsstarfsemi hjá eldri borgurum sem hafa aðsetur í Hrafnagilshverfi og sækja að auki hreyfitíma í íþróttamiðstöð og sundlaug sveitarfélagsins. Mikið líf er í kringum starfsemi eldri borgara sem að öllu jafna hittast á hverjum þriðjudegi í skipulögðu félagsstarfi. Dalbjörg rekur öfluga björgunarsveit með ungliðastarfi, Ungmennafélagið Samherjar býður upp á fjölbreytt úrval tíma í íþróttamiðstöðinni fyrir börn, unglinga og eldri borgara og Hestamannafélagið Funi rekur öfluga og dýrmæta starfsemi. Svo má lengi telja því fjöldi annarra félagasamtaka starfa í sveitarfélaginu með mismunandi áherslum.
Í Eyjafjarðarsveit njótum við ákveðinna forréttinda, við erum umvafin góðu samfélagi þar sem einstaklingar geta upplifað sig sem hluti af heild, hafi þeir til þess löngun. Við búum í samfélagi þar sem kraftar einstaklinganna fá að njóta sín og frumkvöðla má finna á hverjum bæ. Við búum í samfélagi sem einkennist af samkennd og hlýhug.
Eyjafjarðará liðast tignarleg niður sveitina, nærir og mótar frjósama jörðina ásamt þeim fjölda æða sem hana fæða, hún er frosin í stillunni. Fjöllin faðma mig og yfir þeim gnæfir það hæsta, það er notalegt að leggjast aftur á koddann og vita að Kerlingin er vakandi, hún er traust, stendur okkur að baki og hleður okkur orku um ókomna tíð.
Finnur Yngvi Kristinsson
Sveitarstjóri