Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar samþykkti á fundi sínum sl. miðvikudag, 8 febrúar að skoða möguleika á kolefnisjöfnun og upptöku kolefnisbókhalds fyrir Eyjafjarðarsveit.
„Það hefur verið mikil umræða um losun kolefnis frá landbúnaðarstarfsemi og heldur neikvæð í garð bænda. Ég tel ekki augljóst að allir horfi á heildarmyndina í því samhengi. Bændur eru víða mjög atkvæðamiklir skógræktendur og hafa margir hverjir plantað mikið á jörðum sínum samhliða búrekstri sínum, án þess að landsmenn hafi veitt því sérstaka athygli. Þá má ekki líta fram hjá því að hér í Eyjafjarðarsveit eru til að mynda stór votlendissvæði sem skapa sterkt mótvægi við losun kolefnis“ segir Jón Stefánsson oddviti Eyjafjarðarsveitar. Hann telur að bændur og landeigendur í Eyjafjarðarsveit hafi síst legið á liði sínu við skógrækt og uppgræðslu lands og margir hafi áhuga á að ráðstafa stórum svæðum á jörðum sínum fyrir frekari skógrækt. Landbúnaður er blómlegur og umfangsmikill í Eyjafjarðarsveit og því fylgir nokkur losun kolefnis. „Bændur og aðrir íbúar sveitarfélagsins eru almennt framsæknir í umhverfismálum og vilja vera í fremstu víglínu á þeim vettvangi. Við ætlum því að reyna að kortleggja kolefnisfótspor Eyjafjarðarsveitar og kanna hvort raunhæft sé að Eyjafjarðarsveit geti orðið kolefnishlutlaust sveitarfélag í náinni framtíð“ segir Jón.