Við í Eyjafjarðarsveit erum einstaklega heppin að eiga öflugan og samstilltan mannauð í okkar leik-, grunn- og tónlistarskólum. Í þessum skólum vinnur starfsfólk í teymum með áherslu á samvinnu og stuðning sem skapar umhverfi þar sem nemendur, kennarar og annað starfsfólk fær tækifæri til að blómstra, njóta sín, skapa og skara fram úr. Slík fagmennska og samstaða er ómetanleg og er afar ánægjulegt að sjá einstaklinga eins og Hans Rúnar blómstra, ná framúrskarandi árangri og stuðla að framþróun í menntakerfinu sem allir fá að njóta.
Það er okkur heiður að eiga slíka fyrirmynd í samfélagi okkar. Ég sendi Hans Rúnari mínar innilegustu hamingjuóskir með verðlaunin og þakka honum fyrir framúrskarandi framlag hans til Hrafnagilsskóla og íslenska menntakerfisins í heild. Hans hefur sýnt með störfum sínum hversu mikilvæg nýsköpun og ástríða er í starfi og hlakka ég til að sjá enn frekari árangur af störfum hans í framtíðinni.
Hans Rúnar hlaut hvatningaverðlaun íslensku menntaverðlaunanna 2024 ásamt Bergmanni Guðmundssyni, verkefnisstjóra við Brekkuskóla og Giljaskóla á Akureyri fyrir leiðbeiningar um notkun upplýsingatækni í kennslu.
Hans og Bergmann hafa þróað og haldið úti vefsíðunni Snjallkennslan frá árinu 2018 þar sem þeir hafa meðal annars miðlað upplýsingum um notkun á upplýsingatækni í kennslu, kynnt forrit og öpp sem nýtast bæði í kennslu og námi. Þá er á vefsíðunni verkefni fyrir nemendur sem þurfa meiri stuðning í námi og leiðbeiningar fyrir kennara um notkun gervigreindar og verkfæri til að auka málskilning og orðaforða nemenda.
Upptöku frá athöfninni má sjá hér en viðtal við þá Hans og Bergmann má finna undir lok upptökunnar https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/islensku-menntaverdlaunin-2024/36057/anrn4h
Hamingjuóskir, Finnur Yngvi Kristinsson,
sveitarstjóri