Markmið Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla álfuna og sporna þannig við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Áhersla er lögð á að höfða til grasrótarinnar og hvetja almenning til þess að hreyfa sig oftar og meira í sínu daglega lífi. Evrópubúar sameinast í vikunni undir slagorðinu #BeActive.
Eyjafjarðarsveit sem Heilsueflandi samfélag, tekur þátt í íþróttavikunni og er undirbúningur viðburðarins hafinn. Líkt og áður verður leitað til einstaklinga og félagasamtaka í Eyjafjarðarsveit um skipulagningu viðburða og eru þeir sem hafa áhuga á því að bjóða upp á viðburði sem falla undir markmið íþróttavikunnar, beðnir um að hafa samband við Karl Jónsson, í gegn um netfangið karlj@esveit.is.