Íbúafundurinn - Hvernig er að vera barn í Eyjafjarðarsveit

Foreldrafélög Hrafnagilsskóla, Krummakots og Ungmennafélagið Samherjar boðuðu til fundar um málefni barna í Eyjafjarðarsveit. Fundurinn var haldinn í Laugarborg 14. mars síðastliðinn og mættu 52 íbúar. Miklar umræður sköpuðust og var almennt góður andi yfir fundinum.

Helstu niðurstöður voru þær að mikil ánægja er með samstarf milli Ungmennafélagsins, leik-, grunn- og tónlistarskóla. Margir kostir felast í litlum skólum og samfélagi. Persónuleg tengsl eru meiri og þjónustustigið hátt. Eitt af því sem var nefnt að betur mætti fara er að fundir með foreldrum og starfsfólki væru fleiri og betur sóttir.

Framboð af íþróttum er gott í sveitinni, æfingagjöld lág og aðstaða til iðkunnar góð. Samherjar standa fyrir öflugu starfi og eru einn af burðarásunum í utanumhald Handverkshátíðar. Áskoranir í íþróttum tengjast því helst að virkja krakka til íþróttaiðkunar þegar unglingsárin færast yfir og að fá þjálfara fyrir þær íþróttir sem fólk vill stunda. Hugmyndir komu upp um bætt aðgengi að æfingasal  og endurnýjun tækja en slík bragabót gæti höfðað til eldri krakka.

Nokkrar hugmyndir komu um annarskonar afþreyingu fyrir ungdóminn en íþróttir. Margir nefndu að hægt væri að efla félagsmiðstöðina sem gegnir mikilvægu hlutverki í þroska barna og unglinga. Vert er að skoða hvernig væri hægt að virkja skapandi greinar. Einnig komu upp hugmyndir um skátastarf sem er mjög í takt við góðar viðtökur við útivistarskóla síðasta vor og þá uppbyggingu sem hefur átt sér stað í Aldísarlundi. Margir vildu fleiri tækifæri til að fjölskyldur gætu stundað íþróttir og afþreyingu saman.

Talsverður áhugi er á að halda fleiri fjölskylduvæna viðburði í sveitinni eins og Vígaglúm sem eitt sinn var og hátíð Hestamannafélagsins Funa á sumardaginn fyrsta sem er árlegur viðburður. Hægt væri þá að nýta staði sem annars eru vannýttir eins og Leyningshólar og Melgerðismelar.

Varðandi almennt heilsufar og uppeldismál var helst rætt um skjánotkun, svefn, matarræði og hreyfingu, þessi atriði eru að öllu jöfnu í góðu horfi samkvæmt fundarfólki. Flestir voru sammála um að gott væri að gefa út viðmið í þessum efnum og halda á lofti til að auðvelda foreldrum að fást við þessi lýðheilsulegu atriði ef þurfa þykir.

Fundurinn og úrvinnsla upplýsinga var staðfesting á því sem vel er gert og vísbending um það sem betur má fara og var hann ekki síður innblástur til góðra verka. Ungmennafélagið og stjórnir foreldrafélaganna munu nýta sér niðurstöðurnar og hugmyndirnar í sínu starfi á komandi misserum. Vilja stjórnirnar nota tækifærið og þakka öllum sem mættu á fundinn. Til gamans látum við fylgja nokkra punkta sem komu fram á fundinum.

 

Hvað er jákvætt:

  • Að íþróttatímar Samherja séu beint eftir skóla og snúist ekki bara um keppni
  • Hversu dýrmætt einstaklingsframtakið er
  • Valdi kokkur er bestur
  • Handverkshátíðin, stemming og fjáröflun
  • Að tónlistarskólinn sé á skólatíma
  • Unglingastarf Dalbjargar
  • Jákvæður agi stefnan í skólunum
  • Mikið af góðum og gagnlegum leikjum í símum
  • Dagur íslenskrar tungu
  • Aldísarlundur
  • Hátt þjónustustig skólanna
  • Samverustundir í byrjun dags í skólanum
  • Tónlistarstarf í leik- og grunnskóla

Hvað má bæta:

  • Skólalóðin illa búin og einhæf
  • Hafa frítt í sund, heilsueflandi
  • Hjól í tækjasal Íþróttamiðstöðvarinnar
  • Lengri frímínútur
  • Ræða Handverkið fyrr
  • Ungmennaráðið er óvirkt
  • Vantar húsnæði í sveitina
  • Væri hægt að nýta skólabílana betur
  • Hafa aðgengilegri upplýsingar á esveit.is
  • Hvað eru unglingarnir að gera
  • Kynna betur starf Samherja
  • Vantar frjálsar íþróttir
  • Foreldrar fari eftir aldurstakmörkunum á forritum, t.d. facebook, snapchat o.þ.h.
  • Börnin eru oft þreytt eftir helgar
  • Kostnaður að koma börnum heim úr Hyldýpinu
  • Nýta félagsmiðstöðina betur

Hugmyndir að nýjungum:

  • Vera með fjölskylduhitting að hausti þar sem öll félagasamtök kynna sig og sitt
  • Fá þjálfara í tækjasal ÍME
  • Skák
  • Leyfa yngri í félagsmiðstöðina
  • Leyningshólar verði fólkvangur sveitarinnar
  • Bæta í sumardaginn fyrsta
  • Ylströnd
  • Vantar vettvang til tengslamyndunar
  • Setja upp hjólageymslu á skólalóðinni
  • Vantar stað fyrir börnin að hanga
  • Vígaglúmur
  • Heimsókn í sveitina, að einn bekkur á hverju stigi sé með sveitatengt verkefni
  • Skapandi greinar, útilífsnámskeið
  • Samvera foreldra og barna, námskeið
  • Gæðahringur foreldra
  • Snjalltækjalaus tími á heimilinu
  • Skátar
  • Hafa afþreyingu fyrir börn meðan foreldrar mæta á æfingu, fullorðnir sem fyrirmyndir

Stjórnir foreldrafélags Hrafnagilsskóla, Krummakots og Ungmennafélagsins Samherja