Viðvaranir Veðurstofunnar eru mikið í umræðunni þessa daga en ekki víst að allir hafi þekkingu á því hvað þær í raun þýða. Hér eru upplýsingar um hvað grænn, gulur, appelsínugulur og rauður þýða hjá Veðurstofunni.
Þó viðvörun sé í gangi fyrir landshlutann þá þarf það ekki að þýða að öll svæði séu undir, þannig getur til að mynda verið aftaka veður á einum stað í sveitinni en ágætt annarstaðar. Því er einnig mikilvægt að íbúar sem hugsa sér til hreyfings meðan viðvaranir eru í gangi fylgist einnig vel með vef Veðurstofunnar og ekki síður staðbundnum upplýsingum svo sem á samfélagsmiðlum. Þá er einnig mjög gott ef fólk er duglegt að deila stöðu sinni og aðstæðum svæðisins á samfélagsmiðlum og sameiginlegum síðum eins og Íbúar Eyjafjarðarsveitar á Facebook til að gefa öðrum færi á að fylgjast með.
Hvernig og hvenær eru teknar ákvarðanir um að loka stofnunum sveitarfélagsins vegna veðurskilyrða?
Þegar viðvaranir eru í gildi eða veðuraðstæður stefna í að verða mjög slæmar þá er lagt mat á hvaða áhrif það kunni að hafa á sveitarfélagið og íbúa þess. Fyrst og fremst byggja ákvarðanir um lokun stofnanna sveitarfélagsins á því hvort öryggi íbúa sé almennt ógnað fari þeir af stað frá heimili sínu, í öðru lagi er lagt mat á það hversu víðtæk áhrif veðurskilyrði hafa innan sveitarfélagsins og í þriðja lagi er skoðað á hvaða tíma veðurskilyrðin ganga yfir.
Ákvarðanir um lokanir eru almennt teknar í samstarfi milli skrifstofu sveitarfélagsins og forstöðumanns viðkomandi stofnunnar, svo sem skólastjóra eða leikskólastjóra. Samráð er almennt haft við skólabílstjóra og Vegagerðina í þessum ákvörðunum. Ákvarðanir um lokanir sem teknar eru með löngum fyrirvara eru ávallt teknar af eða í samráði við sveitarstjóra.
Að ákvarða lokun skóla og leikskóla vegna veðurs er aldrei léttvægt og byggir ávallt á bestu mögulegu upplýsingum hverju sinni. Ákvörðun er alltaf tekin með öryggi íbúanna að leiðarljósi.