Hrafnagilsskóli í Eyjafjarðarsveit hefur um árabil vakið athygli fyrir framsækni og farsælt skólastarf. Sýn skólans er sú að allir hafa hið góða í sér og möguleikann til að verða betri manneskjur. Þessi einkunnarorð endurspeglast í væntingum starfsfólks til nemenda. Virðing þeirra fyrir nemendum kemur fram í því hvernig þeir ræða við þá og hlusta á sjónarmið þeirra. Skólaheit nemenda er: „Ég kem í skólann til að læra og nýta hæfileika mína til fulls.“
Miðvikudaginn 30.maí síðastliðinn voru Íslensku menntaverðlaunin afhent við hátíðlega athöfn í Ingunnarskóla í Reykjavík. Hrafnagilsskóli veitti verðlaununum viðtöku fyrir framúrskarandi skólastarf. Stjórnendur skólans, kennarar, nemendur og starfsfólk fóru saman til Reykjavíkur ásamt helstu forsvarsmönnum sveitarinnar af þessu tilefni. Hérna má skoða skjal sem sýnir forsendur verðlaunanna. Hérna má skoða ljósmyndir frá afhendingunni. Hérna má skoða upptöku frá þættinum Kastljósi sem sýndi frá afhendingunni.