Kynning á fyrirhuguðu deiliskipulagi Hrafnagilshverfis fór fram 24. júní sl. og mætti nokkur fjöldi íbúa sveitarfélagsins á fundinn. Í kjölfar fundarins gafst íbúum færi á að koma athugasemdum á framfæri og bárust sveitarfélaginu nokkur erindi vegna málsins. Skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar fjallaði um innkomin erindi og um skipulagslýsingu vegna verkefnisins á fundi sínum 31. ágúst sl. og samþykkti sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar á fundi sínum 3. september 2020 að vísa skipulagslýsingunni í lögformlegt kynningarferli. Skipulagssvæði fyrirhugaðs deiliskipulags er um 82 ha og afmarkast af þéttbýlismörkum Hrafnagilshverfis í Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030. Gert er ráð fyrir að aðlaga þurfi aðalskipulag sveitarfélagsins að áformum sem sett verða fram í deiliskipulaginu og því snýr skipulagslýsingin einnig að aðalskipulagsbreytingu.
Á áttunda áratug síðustu aldar tók að myndast þéttbýliskjarni í landi Hrafnagils í Hrafnagilshreppi og hefur þorpið vaxið í nokkrum áföngum síðan þá. Til eru skipulagsáætlanir sem taka til hluta þéttbýlisins en ekki er til heildstætt deiliskipulag sem tekur til alls þéttbýlisins. Áformað er að Eyjafjarðarbraut vestri hliðrist út fyrir þéttbýlismörk með lagningu nýs vegar milli Kropps og Miðbrautar árið 2021. Við þá framkvæmd losnar um talsvert rými innan þéttbýlisins auk þess sem minnkun bílaumferðar býður upp á bættar samgöngur og umhverfisgæði innan þéttbýlisins. Af þessu tilefni hefur sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar ákveðið að ráðast í gerð heildstæðs deiliskipulags fyrir þéttbýlið þar sem mörkuð verður stefna um uppbyggingu þess til langs tíma. Gerð er grein fyrir efnistökum fyrirhugaðs deiliskipulags auk tilheyrandi aðalskipulagsbreytingu í skipulagslýsingunni sem nú er kynnt.
Lýsing vegna skipulagsverkefnisins mun liggja frammi á skrifstofu Eyjafjarðarsveitar frá 28. september 2020 til og með 19. október 2020. Lýsingin verður einnig aðgengileg á vef sveitarfélagsins, esveit.is. Íbúum til hægðarauka er hægt að hlaða niður kortum af þéttbýlinu sem hægt er að nota við vangaveltur og til að koma tillögum á framfæri.
Þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við lýsinguna til mánudagsins 19. október 2020. Athugasemdir skulu vera skriflegar og skulu berast til skipulags- og byggingarfulltrúa á netfangið sbe@sbe.is eða í bréfpósti stílað á Skipulags- og byggingarfulltrúa Eyjafjarðar, Skólatröð 9, 601 Akureyri.
Bent er á að auk auglýsingarinnar sem nú fer fram verður skipulagstillaga auglýst í tvígang seinna í skipulagsferlinu. Skipulagstillaga á vinnslustigi verður auglýst þegar sæmilega greinileg mynd verður komin á tillöguna og loks verður fullunnin skipulagstillaga auglýst með sex vikna athugasemdafresti þegar sveitarstjórn telur tillöguna tilbúna til þess.
Skipulags- og byggingarfulltrúi