Undanfarin misseri hefur Eyjafjarðarsveit unnið að undirbúningi lagningar göngu- og hjólastígs milli Hrafnagilshverfis og Akureyrar sem myndi tengjast inn á nýjan og glæsilegan göngu- og hjólastíg við Drottningarbraut á Akureyri. Góður gangur hefur verið í þeirri vinnu undanfarnar vikur. Kostnaðaráætlun er 160 mkr. og því nokkuð stórt verkefni fyrir sveitarfélagið.
Fyrir réttri viku síðan þáði sveitarstjóri boð Höskuldar Þórs Þórhallssonar formanns Umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um að koma á fund hans og samnefndarfólks hans til að kynna verkefnið og aðrar áherslur í samgöngumálum sveitarinnar. Höskuldur Þór heimsótti skrifstofu Eyjafjarðarsveitar í sumar til að fá upplýsingar um verkefnið sem fyrir hans milligöngu var í kjölfarið kynnt fyrir nefndinni. Sveitarstjóri, skrifstofustjóri og oddviti sveitarstjórnar fóru á fundinn sem gekk vel og voru nefndarmenn áhugasamir um göngu- og hjólastíginn. Vinna við samgönguáætlun stendur yfir og vonir standa til að fjármunum verði varið í gerð göngu- og hjólastíga til að tengja sveitarfélög utan höfuðborgarsvæðisins. Við fengum upplýsingar hjá nefndarmönnum um sambærileg verkefni á suðvesturhorninu og ýmsar gagnlegar ábendingar sem þegar er farið að vinna með. Um leið og við þökkuðum Höskuldi Þór og öðru nefndarfólki fyrir góðan fund báðum við þau að litast um eftir fjármagni til verkefnisins við frágang samgönguáætlunar sem er til meðferðar í þinginu.