Hefur þú hugmynd, tillögu eða raunverulegt verkfæri sem getur stuðlað að betri þjónustu við fatlað fólk?

Fréttir

Reykjavík 4. júní 2021

 

Efni: Aukin stuðningur við félagsstarf fyrir fullorðið fatlað fólk sumarið 2021 vegna COVID-19.

Umbætur og nýsköpun í þjónustu við fatlað fólk.

Félags- og barnamálaráðherra hefur ákveðið að fara af stað með verkefni sem miðar að því að safna og miðla upplýsingum, auka þekkingu og reynslu á tæknilausnum og þjónustu sem dregið gætu úr þeim áhrifum sem rekja má til afleiðinga COVID 19 á stöðu fatlaðs fólks. Samþykkt hefur verið að veita 40 milljónum króna til þessa verkefnis á landsvísu á árinu 2021.

Með því að styðja við framfarir í þjónustu við fullorðið fatlað fólk og fjölskyldur þeirra stuðlum við að því að samfélag okkar geti orðið enn betra en það var fyrir COVID 19 faraldurinn. Þátttakendur í þessu verkefni geta verið einstaklingar, félög, almannaheillasamtök, sveitarfélög og ríkisstofnanir, ásamt öllum almenningi.

Verkefnin er mörg og af fjölbreyttum toga, og snúa meðal annars að því að styrkja fólk til sjálfshjálpar, vinna gegn kvíða, einsemd, styrkja félagsleg tengsl, koma á tengslum, hjálpa fólki til að komast í tengsl við aðra og vita hvert leita eigi eftir aðstoð og stuðningi. Við þessar aðstæður er stundum til einföld svör, en í öðrum þarf til samstarf þar sem jafnvel er þörf fyrir tæknilausnir ýmis konar.

Félagsþjónustan í landinu er nú að takast á við áskoranir sem hún hefur ekki horfst í augu við áður. Það er því ljóst að finna þarf lausnir á verkefnum sem leysa þarf til skemmri tíma og til lengri tíma.

Hefur þú hugmynd, tillögu eða raunverulegt verkfæri sem getur stuðlað að betri þjónustu við fatlað fólk?

Þarf að breyta viðhorfum, skipulagi og/eða vinnulagi, eða vantar tæki og tól sem létt geta vinnuna og aukið gæði hennar?

Áhugasömum gefst nú tækifæri til að sækja um styrki til umbóta- og nýsköpunarverkefna sem eru til þess fallin auka enn frekar ábatann af þeirri þjónustu sem nú er veitt eða koma með nýjar lausnir sem til framfara horfa eftir COVID 19.

Umsóknir um styrki til verkefna skulu fullnægja þeim skilyrðum sem gera má til umbóta- eða nýsköpunarverkefna í þjónustu við fatlað fólk.

Þeir sem óska eftir fjárframlagi skulu senda inn umsókn fyrir 21. júní næstkomandi kl. 12:00, í gegnum eyðublaðavef Stjórnarráðsins https://minarsidur.stjr.is/web/index.html.

 

Í umsókninni þarf m.a. að koma fram (sjá nánar í umsóknareyðublaði)

  • Markmið og lýsingu á verkefninu.
  • Verkefnisáætlun
  • Tímalína
  • Fjárhagsáætlun
  • Samstarfsaðilar

 

Þeir sem fá styrk skulu skila greinargerð um árangur verkefnisins til félagsmálaráðuneytisins, fyrir 1. október 2021, á netfangið frn@frn.is undir heitinu Umbóta og nýsköpunarverkefni fyrir fullorðið fatlað fólk sumarið 2021 vegna COVID-19 frá „nafn styrkþega“.