Kæru þjónustuaðilar í Eyjafjarðarsveit
Til að stuðla að aukinni verslun í heimabyggð hefur sveitarfélagið útbúið gjafabréf sem hægt verður að kaupa á skrifstofu sveitarfélagsins frá og með föstudeginum 20.nóvember og verður eingöngu hægt að nýta hjá þeim þjónustuaðilum í sveitarfélaginu sem vilja taka við því.
Nokkrir þjónustuaðilar hafa þegar látið vita að þeir vilji endilega bjóða handhöfum gjafabréfsins að nýta það hjá sér og er það mín von að sem flestir þjónustuaðilar vilji taka við gjafabréfunum og nýta þannig þessa þjónustu sveitarfélagsins. Skráning á listann fer fram á esveit@esveit.is eða í síma 463-0600 og mun hann fyrst birtast föstudaginn 20.nóvember og verður síðan uppfærður jafn óðum og fleiri bætast á hann.
Sala gjafabréfsins fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins og fer upphæð þess eftir óskum kaupandans, hefst sala þess næstkomandi föstudag.
Þjónustuaðili sem tekur á móti gjafabréfinu þarf einfaldlega að taka við því eins og pening og senda síðan sveitarfélaginu gjafabréfið ásamt reikningi að andvirði þess. Sveitarfélagið greiðir síðan reikninginn umsvifalaust.
Til að ræsa verkefnið og sýna starfsfólki sínu þakklætisvott fyrir sveigjanleika á tímum heimsfaraldurs hefur sveitarfélagið nú þegar gefið starfsfólki sínu um 80 gjafabréf sem hvert er að andvirði 5.000kr og mun renna beint til þjónustuaðila í sveitarfélaginu.
Með von um jákvæð viðbrögð og fullt af þátttakendum og með ábendingu um fallega og góða jólagjöf til vina og vandamanna.
Finnur Yngvi Kristinsson,
Sveitarstjóri