Hópur barna úr elsta árgangi Krummkots og 1. bekk Hrafnagilsskóla komu í dag á sveitarskrifstofuna til að hitta sveitarstjórann að máli. Erindið var að spyrja nokkurra spurninga um sjóræningja en börnin höfðu fundið flöskuskeyti í Eyjafjarðará sem ónefndir sjóræningjar höfðu sent. Að sjálfsögðu var ljúft að verða við erindinu en eitthvað vafðist það fyrir sveitarstjóranum að svara spurningunum sem voru eftirfarandi:
- Mega sjóræningjar búa í Eyjafjarðarsveit?
- Geta sjóræningar farið í Krummakot og Hrafnagilsskóla?
- Hvar gætu þeir átt heima?
- Hvar er rúm handa þeim?
Næstu tvo þriðjudaga koma tveir aðrir hópar með spurningar um sjóræningja til sveitarstjóra og eitt er víst að ætlast er til að veitt verði skýr og greinargóð svör.