Frumsýning í Freyvangi

Jörundur kominn í sveitina!

Freyvangsleikhúsið í Eyjafjarðarsveit frumsýnir söng– og gleðileikinn Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason, föstudaginn 22. febrúar, nákvæmlega 38 árum eftir að verkið var fyrst frumsýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur.
Allir þekkja ævintýrið um Jörund sem kom hingað til Íslands og gerðist yfirvald nánast upp á sitt eindæmi. Tónlist verksins hefur verið gerð ódauðleg í gegnum tíðina, Þrjú á palli spiluðu og sungu undir sýningunni í fyrstu uppfærslu hennar árið 1970 og í seinni tíð hefur hljómsveitin Papar tekið tónlistina upp á sina arma. Í Freyvangi eru einnig valdir menn og konur í hverju rúmi. Hermann Arason og Eiríkur Bóasson, gamalreyndir tónlistarmenn, ganga fyrir vöskum hópi hljómlistarfólks. Þá er leikaraliðið ekki síðra. Meðal annarra leika burðarhlutverk Ingólfur Þórsson, Jónsteinn Aðalsteinsson, Stefán Guðlaugsson og Hannes Örn Blandon, en Sigríður Hulda Arnardóttir er aðalleik- og söngkona sýningarinnar. Öll hafa þau langa reynslu með Freyvangsleikhúsinu og öðrum leikfélögum. Alls eru tónlistarmenn og leikarar vel á þriðja tug og þessum stóra hóp stjórnar Saga Jónsdóttir. Þórarinn Blöndal hannaði leikmynd og Ingvar Björnsson og Pétur Skarphéðinsson sáu um hönnun lýsingar. Kristín Sigvaldadóttir hannaði búninga.

Frumsýning föstudaginn 22. febrúar kl. 20.30 UPPSELT
Önnur sýning sunnudaginn 24. febrúar kl 20.30 Laus sæti!
Þriðja sýning föstudaginn 29. febrúar kl. 20.30
Fjórða sýning Sunnudaginn 2. mars kl. 20.30
Fimmta sýning föstudaginn 7. mars kl. 19.00 UPPSELT
Sjötta sýning laugardaginn 8. mars kl. 20.30 ÖRFÁ SÆTI LAUS
Sjöunda sýning föstudaginn 14. mars kl. 20.30 ÖRFÁ SÆTI LAUS
Áttunda sýning laugardaginn 15. mars kl. 16.00 AUKASÝNING - UPPSELT
Níunda sýning laugardaginn 15. mars kl. 20.30
Tíunda sýning miðvikudaginn 19. mars kl. 20.30
Ellefta sýning Fimmtudaginn 20. mars (Skírdag) kl. 20.30
Tólfta sýning laugardaginn 22. mars kl. 20.30

Frekari upplýsinga má leita á Freyvangsleikhússins, www.freyvangur.net, eða í miðasölunni í síma 857 5598. Þá er einnig hægt að panta miða í gegnum heimasíðuna. Heimasíðan hefur nú verið uppfærð með myndum, tónlist og myndbrotum úr sýningunni.

Sjáumst í Freyvangi!
                    Freyvangsleikhúsið