Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2025 og 2026-2028

Fréttir

Á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar þann 12. desember var fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2025 og árin 2026–2028 samþykkt samhljóða í síðari umræðu. Áætlunin undirstrikar sterka fjárhagsstöðu sveitarfélagsins og tryggir áframhaldandi jafnvægi í rekstri.

Helstu niðurstöður fyrir árið 2025

  • Tekjur: Áætlaðar 2.033 millj. kr.
  • Gjöld án fjármagnsliða: Áætluð 1.601 millj. kr.
  • Rekstrarniðurstaða með fjármagnsliðum: Jákvæð um 341,5 millj. kr.
  • Veltufé frá rekstri: 272,5 millj. kr.

Árið 2025 markar metár í fjárfestingum, þar sem gert er ráð fyrir framkvæmdum upp á 1.010,1 millj. kr. Stærstu verkefnin eru nýbygging leik- og grunnskóla (879 millj.), gatnagerð (51 millj.), fráveita (40 millj.) og nýframkvæmdir og endurbætur á sundlaugasvæði (32 millj.). Þessar fjárfestingar endurspegla metnaðarfulla framtíðarsýn sveitarstjórnar um að vinna stöðugt að því að bæta lífsgæði og þjónustu við íbúa samfélagsins.

Áhersla á ábyrga fjármálastjórn
Sveitarfélagið hefur á síðustu árum unnið markvisst að aðhaldi og skynsamlegri nýtingu fjármuna. Skuldarviðmið Eyjafjarðarsveitar stendur í dag í 0%, en ár árinu 2025 mun Eyjafjarðarsveit í fyrsta skipti í nær tvo áratugi (frá því 2006) stofna til nýrrar lántöku (460 millj. kr.). Þrátt fyrir þetta verður skuldaviðmiðið enn mjög lágt, eða 23% af leyfilegu hámarki (150%). Á árunum 2025-2028 verður framkvæmt fyrir um 414 millj. kr. til viðbótar en ekki er áætlað að þörf sé á að mæta því með frekari lántöku. Þannig er áætlað að handbært fé verði 122 millj.kr. í árslok 2026 og muni aukast í 611 millj.kr. fyrir árslok árið 2028.

Sveitarstjórnin hefur með samheldni, stefnumótandi og ábyrgri stjórnun náð að skapa rými til umfangsmikilla fjárfestinga án þess að hætta sé á of mikilli skuldsetningu. Þá er starfsmannahópur sveitarfélagsins á öllum sviðum samsettur af traustum og góðum mannauði sem tilbúinn er að leggja hendur á plóg þegar þörf er á líkt og sýndi sig vel á árum heimsfaraldurs og er það ómetanlegt framlag til daglegs reksturs og framtíðarvaxtar samfélagsins.

Framtíðin björt
Eyjafjarðarsveit hefur ekki aðeins viðhaldið fjárhagslegum stöðugleika, heldur byggt upp sterkan grunn til áframhaldandi vaxtar og framfara. Með skýrri framtíðarsýn og vel ígrundaðri áætlun eru allar forsendur fyrir því að sveitarfélagið haldi áfram að þróast sem fyrirmyndarsamfélag fyrir íbúa sína og komandi kynslóðir.

 

Finnur Yngvi Kristinsson, sveitarstjóri