„Í framhaldi af bókun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar frá 22. mars 2011, hefur farið fram könnun á þjónustugjöldum viðskiptabanka og sparisjóða á Akureyri og nágrenni. Auk þess hefur verið fundað með núverandi viðskiptabanka Eyjafjarðarsveitar, Arion banka.
Með hliðsjón af þessari vinnu og niðurstöðu hennar samþykkir sveitarstjórn að ganga til samninga við BYR sparisjóð um bankaviðskipti sveitarfélagsins og er sveitarstjóra og skrifstofustjóra falið að ganga frá samningi þar um.
Aftur vill sveitarstjórn þakka starfsmönnum Arion banka á Akureyri fyrir gott samstarf og samskipti til margra ára en sú staða sem uppi er nú varðandi launaþróun og stefnu bankans er að mati sveitastjórnar óásættanleg og er það yfirstjórnar bankans að taka á því máli.
Í kjölfar kreppunnar þurfti Eyjafjarðarsveit, eins og mörg önnur sveitarfélög, að bregðast við til að lækka rekstrarkostnað sveitarfélagsins og í október 2008 var gripið til aðgerða sem kölluðu á sársaukafullan niðurskurð m.a. uppsagnir fólks, lækkun launa og kröfu um meira vinnuframlag allra sem að rekstri sveitarfélagsins koma. Með þessum aðgerðum, skilningi og góðri samstöðu starfsmanna og íbúa hefur tekist að halda þeirri góðu fjárhagsstöðu sem sveitarfélagið hefur haft.
Ástæður þess að gripið er til þessara aðgerða er megn óánægja sveitarstjórnar með þá launastefnu sem virðist vera að ryðja sér til rúms á ný í nokkrum fjármálastofnunum landsins á sama tíma og einstaklingar, fyrirtæki og sveitarfélög eru að vinna úr afleiðingum fallsins með áðurnefndum hætti. Það má öllum vera ljóst að fjármunir til rekstrar þessara bankastofnana eru sóttir til viðskiptavina sem eru nauðsynleg uppspretta þess fjár sem þarf til að greiða laun og annan rekstrarkostnað.
Sveitarstjórn skorar á fyrirtæki, félög, stofnanir og einstaklinga að vera meðvitaðir um þá þróun sem á sér stað í þeim fjármálastofnunum sem þeir eiga viðskipti við og koma óánægju sinni á framfæri ef þörf er á t.d. með því að flytja viðskipti sín. Aðeins á þann hátt er mögulegt að hafa áhrif á stefnu fjármálastofnana sem oft á tíðum virðist alls ekki vera í neinum takti við fólkið í landinu.“