Þann 24. mars kl. 20.00 verður haldinn fyrirlestur og fræðsla í Funaborg um brjóstakrabbamein. Þar ætlar Dóróthea Jónsdóttir að ræða um reynslu sína af brjóstakrabbameini en árið 2012 gaf hún út bókina "Bleikur barmur – barátta mín við krabbamein" og er bókin nú í notkun hjá brjóstakrabbameinsteymi Landsspítalans. Jóhanna Júlíusdóttir hjúkrunarfræðingur sem starfar hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis ætlar að koma með brjóstavesti og sýna okkur meðal annars hvernig á að þreifa brjóstin.
Þetta er þörf og góð fræðsla sem við hvetjum konur til að mæta á og taka með vinkonu því þetta snertir okkur allar. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbameinið í konum á Íslandi eða tæplega þriðjungur tilfella. Árlega greinast um 200 konur með sjúkdóminn hér á landi.
Þessi fyrirlestur er opinn öllum og hlökkum við til að sjá þig.
Á boðstólnum verður kaffi og súkkulaði.
Kvenfélagið Hjálpin