Fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2024 og árin 2025–2027, var tekin til síðari umræðu og samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar þann 7. desember.
Áætlunin gerir ráð fyrir að almennur rekstur sveitarfélagsins verði í jafnvægi líkt og undanfarin ár.
Helstu niðurstöðutölur úr fjárhagsáætlun Eyjafjarðarsveitar fyrir árið 2024 eru:
Tekjur eru áætlaðar kr. 1.794 millj. Gjöld án fjármagnsliða eru áætluð 1.464 millj.
Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða verði jákvæð um 267,6 millj. og að veltufé frá rekstri verði 252,7 millj.
Gert er ráð fyrir fjárfestingum fyrir um 811,5 millj. á árinu 2024.
Stærstu einstöku framkvæmdirnar eru við nýbyggingu leik- og grunnskóla 720 millj. og gatnagerð og fráveitu 50 millj. Gert er ráð fyrir að á árinu 2024 verði eignir seldar fyrir 80 millj. og tekið verði lán 150 millj. en það er fyrsta lántaka Eyjafjarðarsveitar síðan 2006.
Á áætlunartímabilinu 2025 – 2027 er gert ráð fyrir fjárfestingu fyrir 1.156 millj. Þessum útgjöldum verður m.a. mætt með aðhaldi í rekstri, sölu eigna og lántöku.
Áætluð lántaka tímabilsins er 317 millj. Skuldaviðmið Eyjafjarðarsveitar samkvæmt reglugerð er nú 0% en í lok framkvæmdatímabilsins er það áætlað 40%. Leyfilegt skuldahlutfall er 150%
Þrátt fyrir þessar miklu framkvæmdir, 1.968 millj. á árunum 2024 – 2027 sem bætast við framkvæmdir á árunum 2022 og 2023 sem voru 313 millj., er og verður fjárhagsstaða Eyjafjarðarsveitar sterk. Ræður þar mestu að undanfarin ár hefur verið gætt aðhalds í rekstri sveitarfélagsins og skipulag og framtíðarsýn hefur verið skýr varðandi þær framkvæmdir sem nú er verið að ráðast í.