Landsleikurinn ALLIR LESA fer fram í fyrsta sinn 17. október til 16. nóvember 2014 og lýkur honum því á degi
íslenskrar tungu.
Þetta er einfaldur leikur sem allir geta tekið þátt í en hann felst í því að þátttakendur skrá lestur sinn í
lestrardagbók á vefnum allirlesa.is og taka þátt í liðakeppni sem er í svipuðum dúr og t.d. Hjólað í vinnuna. Þau
lið sem verja mestum tíma í lestur á keppnistímanum standa uppi sem sigurvegarar.
Markmiðið með leiknum er að auka lestur íslensku þjóðarinnar og fá fleiri til að njóta þess sem lesturinn færir hverjum og einum.
Honum er ætlað að hvetja þá sem lesa til að lesa enn meira og hina sem lesa lítið eða ekki neitt, að hefja lesturinn.
NÁNAR UM ALLIR LESA
Leikurinn gengur út á að þátttakendur skrái þá titla sem þeir lesa og þann tíma sem þeir verja í lestur. Þar
sem leshraði fólks er mismunandi og háður ótal þáttum er ekki farin sú leið að telja blaðsíður, heldur eru það
mínútur sem gilda. Þetta er ekki hraðlestrarkeppni, fólk getur notið þess að lesa í rólegheitunum.
Það skiptir ekki máli hvernig bækur fólk les eða á hvaða formi - prentaðan texta, rafbók eða hljóðbók - allar tegundir
bóka eru gjaldgengar í keppninni. Hér er átt við bækur sem innihalda til dæmis skáldskap, fræði, skýrslur eða eitthvað allt
annað.
Skráning liða á allirlesa.is hefst þann 10. október.
Lestrardagbókin verður áfram opin á vefnum eftir að keppninni lýkur og þar getur fólk haldið utan um eigin lestur allt árið um
kring.
Amtsbókasafnið á Akureyri verður með ýmislegt í boði í tilefni lestrarlandsleiksins:
- Hefst þá lesturinn – Hér höfum við sett saman hugmyndabrunn, stútfullan af bókatitlum fyrir þá sem lásu fyrir margt löngu og vilja koma til baka eftir langt hlé.
- Veiddu bók – Viltu prófa að lesa eitthvað nýtt?
Hér eru 250 titlar sem þú getur laumast í og látið koma þér á óvart! Ef svo vill til að þú veiðir eitthvað kunnuglegt er ekkert sjálfsagðara en að sleppa og veiða aftur - Bókaráðgjafi – Allt okkar starfsfólk er boðið og búið að aðstoða áhugasama í leit sinni að réttu bókinni. Ekki hika við að spyrja!
- Í leit að lestrarfélaga? – Leit þinni er lokið. Stofnað hefur verið lið fyrir alla viðskiptavini Amtsbókasafnsins á vefnum allirlesa.is – Liðið heitir einfaldlega Amtsbókasafnið.
- Broskarlar – Broskarlabækurnar eru bækur sem lesendur mæla með við aðra lesendur, með því að setja broskarl eða fýlukarl í bókina þegar henni er skilað.