Aðalfundur UMF Samherja var haldinn í matsal Hrafnagilsskóla 3. febrúar

Fréttir

Berglind Kristinsdóttir formaður fór yfir starfsemi félagsins á síðasta ári sem einkenndist mikið af Covid-19 faraldrinum og þakkaði hún þjálfurum félagsins sérstaklega fyrir þrautsegju á erfiðum tímum.
Körfubolti og skák komu inn sem nýjar greinar á síðasta ári, meira samstarf hófst við UMSE og framkvæmdastjóra þess, Þorstein Marinósson en áformað er að hann taki að sér ýmis verkefni tengd rekstri Samherja. Steypt var fyrir tartani á íþróttavellinum og samþykkti stjórnin að Samherjar skyldu sækjast eftir Fyrirmyndarfélagsviðurkenningu frá ÍSÍ. Sú ákvörðun var svo staðfest á aðalafundinum.

Óttar Ingi Oddsson gjaldkerfi fór yfir ársreikninginn 2020. Hann einkenndist sömuleiðis mikið af heimsfaraldrinum. Æfingagjöldin voru lækkuð vegna hans en styrkur fékkst frá ÍSÍ til að viðhalda starfssamningum við þjálfara. Engin Handverkshátíð var haldin á síðasta ári og kom það niður á rekstri félagsins.

Lögð var fram tillaga um að stjórn beiti sér fyrir því að sveitarfélagið skoði kosti þess að setja parket á gólfið í íþróttahúsinu. Á fyrsta fundi stjórnarinnar var samþykkt að fresta fullnustu þessarar tillögu þangað til frekari upplýsingar væru komnar fram. Eins og áður segir var samþykkt að UMF Samherjar verði Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og mun sú vinna fara af stað fljótlega. Einnig var samþykkt að þjálfarar Samherja skyldu starfa eftir siðareglum ÍSÍ og UMFÍ.

Ný stjórn var kosin og skipti hún með sér verkum á sínum fyrsta fundi þann 10. febrúar:
Karl Jónsson formaður
Sigríður María Róbertsdóttir gjaldkeri
Ágúst Örn Víðisson ritari
Sigurjón Þór Vignisson
Dagný Linda Kristjánsdóttir
Berglind Kristinsdóttir
Rósa Margrét Húnadóttir
Úr stjórn gengu Guðný Jóhannesdóttir, Óttar Ingi Oddsson og Jón Tómas Einarsson.

Sigurður Eiríksson formaður UMSE ávarpaði fundinn og þakkaði gott samstarf síðustu ár við stjórn og fráfarandi formann félagsins Berglindi Kristinsdóttur, sérstaklega. Sigurður sagðist stoltur af sínu fólki og sagði að starf félagsins hafi hlotið athygli víða um land.