266. fundur sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar haldinn á skrifstofu hennar að Syðra-Laugalandi þriðjudaginn 4. janúar 2005, kl. 19:30.
Mættir voru: Hólmgeir Karlsson, Valgerður Jónsdóttir, Gunnar Valur Eyþórsson, Arnar árnason, Jón Jónsson, Valdimar Gunnarsson, Einar Gíslason og Bjarni Kristjánsson, sveitarstjóri.
Fundargerð ritaði Stefán árnason.
1. Erindi Kennaraháskóla íslands dags. 20. des. 2004, þar sem óskað er heimildar til spurningalistakönnunar í skólum vegna rannsóknar á menntun nemenda með þroskahömlun.
Erindinu er vísað til afgreiðslu skólanefndar.
2. Erindi "Veraldarvina" dags. 29. des. 2004, þar sem óskað er samstarfs við Eyjafjarðarsveit um móttöku ungmenna frá ýmsum þjóðlöndum sem vinna að verkefnum tengdum náttúruvernd, fræðslu og menningu.
Sveitarstjórn tekur jákvætt í erindið og felur umhverfisnefnd og menningarmálanefnd að kanna möguleika á að nýta þessa starfskrafta.
3. Sameining sveitarfélaga við Eyjafjörð í eitt sveitarfélag, skýrsla RHA.
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar hefur á fundi sínum þann 4. jan. 2005 fjallað um skýrsluna "Eyfirðingar í eina sæng? Mat á sameiningu sveitarfélaga í Eyjafirði í eitt" og samþykkt að því tilefni eftirfarandi:
þessari skýrslu var ætlað að varpa ljósi á áhrif sameiningar sveitarfélaganna, einkum að því er tekur til breytinga á þjónustu, breytinga á stjórnsýslu, tengslum almennings við stjórnsýsluna og að lokum áhrif á rekstrarkostnað sveitarfélaganna. Ekki verða auðveldlega fundin í skýrslunni svör við þeim spurningum sem henni var ætlað að svara. Fram koma ýmsar staðhæfingar um að þjónustan yrði betri og hún faglegri án þess að þær staðhæfingar séu studdar rökum og víða virðist beinlínis gæta misskilnings og vanmats á störfum og hlutverki sveitarstjórna og starfsmanna þeirra í minni sveitarfélögunum. Sveitarstjórn lýsir vonbrigðum með að skýrslan getur alls ekki talist það hjálpargagn sem vænst var að hún yrði til að auðvelda sveitarstjórnum á svæðinu að taka afstöðu til sameiningarmálanna. Auk þess telur sveitarstjórn óheppilegt að skýrsluhöfundar kynni skýrsluna ítrekað á opinberum vettvangi og tjái um leið afstöðu sína til málefnisins.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun um sameiningu sveitarfélaga við Eyjafjörð sem svar til nefndar félagsmálaráðuneytisins og Sambands ísl. sveitarfélaga um sameiningu sveitarfélaga:
það hefur verið skoðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar að með öflugri samvinnu sveitarfélaga á Eyjafjarðarsvæðinu megi ná fram því hagræði sem fylgir samruna í stærra sveitarfélag, en um leið varðveita lýðræði íbúa og möguleika þeirra til að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi. þannig hefur sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar lagt sitt af mörkum á undangengnum árum með aðild að samvinnuverkefnum á flestum sviðum þjónustu við íbúa svæðisins með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. það hefur jafnframt verið skoðun sveitarstjórnar að þegar reynsla væri komin á slíka samvinnu gæti samruni sveitarfélaga á svæðinu gengið greiðlega fyrir sig og verið eðlilegt framhald í eflingu þess.
Varðandi hugmyndir nú um samruna allra sveitarfélaga við Eyjafjörð, ásamt Siglufirði, í eitt sveitarfélag er það skoðun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar að það sé ekki tímabært í ljósi þess hve aðstæður þessara sveitarfélaga eru ólíkar. Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar leggst því gegn tillögu um þessa stórsameiningu. Sameining Siglufjarðar við sveitarfélög í Eyjafirði getur varla komið til greina meðan samgöngur eru með núverandi hætti. í ólafsfirði og Dalvíkurbyggð er við þann byggðavanda að etja sem ekki getur verið sanngjarnt að velta á nágrannasveitarfélög með sameiningu, þar hlýtur ríkisvaldið að þurfa að leggja sitt af mörkum til úrlausnar vandans.
Sameining sveitarfélaga hlýtur að hafa það að markmiði að með henni sé betur þjónað hagsmunum íbúanna en ekki er sjáanleg nein brýn nauðsyn á því að Eyjafjarðarsveit gerist hluti stærra sveitarfélags. Kæmi þó til þess verður að líta svo á að sveitarfélagið eigi frekast samleið með þeim sveitarfélögum sem mest samstarf hafa átt með því.
í ljósi þess sem hér hefur verið rakið samþykkir sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar eftirfarandi ályktun:
Sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar telur ekki að fram séu komin nein þau rök sem mæla eindregið með sameiningu sveitarfélagsins við önnur á svæðinu. Samkvæmt því sem áður er talið telur sveitarstjórn sameiningu allra sveitarfélaga á svæðinu ótímabæra.
Verði lögð fram tillaga um sameiningu sveitarfélaga við kosningar þann 23. apríl nk. ætti hún ekki að verða víðtækari en svo að gert yrði ráð fyrir sameiningu Arnarneshrepps, Hörgárbyggðar, Akureyrar, Eyjafjarðarsveitar, Svalbarðsstrandarhrepps og Grýtubakkahrepps í eitt sveitarfélag.
þessi sameining verði þó bundin því skilyrði að heildarframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga skerðist ekki.
Fleira ekki gert, fundi slitið kl. 21:25