Dagskrá:
1. Stóri-Hamar 1 - ósk um breytingu á aðalskipulagi vegna efnistökusvæðis - 2303030
Auglýsingartímabil skipulagstillögu fyrir breytingu á Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar vegna efnistökusvæðis í landi Stóra-Hamars 1 var frá 15. nóvember til 27. desember 2023 og bárust sex erindi vegna málsins.
Ekki koma fram athugasemdir við skipulagstillöguna í erindinum sem fyrir fundinum liggja og því leggur skipualagsnefnd til við sveitarstjórn að auglýst skipulagstillaga verði samþykkt óbreytt skv. 1. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin leggur til að skipulagsfulltrúa verði falið að fullnusta gildistöku aðalskipulagsins.
2. Athafnasvæði á Bakkaflöt - deiliskipulag og breyting á Aðalskipulagi - 2310005
Kynningartímabili skipulagslýsingar vegna breytingar á Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 og vegna nýs deiliskipulags fyrir athafnasvæði á Bakkaflöt lauk 20. desember 2023 og bárust 8 erindi á kynningartímabilinu. Nefndin fjallar um innkomin erindi um lýsinguna.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagshönnuði verði falið að hafa hliðsjón af innkomnum erindum við gerð skipulagstillögu.
3. Ytri-Varðgjá 3 - íbúðir og hótel - 2208016
Auglýsingartímabili aðal- og deiliskipulagstillaga vegna breytingar á Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2018-2030 og breytingar á deiliskipulagi baðstaðar í landi Ytri-Varðgjár vegna áforma um byggingu hótels var frá 9. nóvember til og með 21. desember 2023 og bárust 13 erindi á auglýsingatímabilinu. Nefndin fjallar um innkomin erindi í þeirri röð sem á eftir fer.
1. erindi, sendandi Óshólmanefnd.
Athugasemd a)
Rökstuðningur framkvæmdaaðila fyrir landfyllingu er að hún valdi minna raski en skógarhögg upp í brekkuna. Óshólmanefnd er því ósammála og bendir á að lónið heyrir undir náttúruverndarlög og slíkum svæðum er óheimilt að raska nema brýna nauðsyn beri til og ekki séu aðrir kostir fyrir hendi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Lónið neðan Vaðlareitar er um 12 ha að flatarmáli en
samkvæmt auglýstri deiliskipulagstillögu er gert ráð fyrir um 0,3 ha landfyllingu í lóninu vegna hótelbyggingarinnar. Skipulagsnefnd telur að skerðingin sem verður á leirunum í lóninu vegna landfyllingarinnar sé svo lítil í hlutfalli við stærð lónsins að áhrifin á umhverfislega verndarhagsmuni séu óveruleg. Umfang landfyllingarinnar ræðst af fyrirhugaðri staðsetningu hótelsins, en við val á staðsetningu var leitast við að lágmarka bæði umfang landfyllingar og áhrif á trjágróður ofan fjörunnar. Auk þess bendir nefndin á að með skipulagstillögunni sem nú er auglýst er dregið verulega úr umfangi landfyllingar frá því sem gert er ráð fyrir í eldra skipulagi. Skipulagsnefnd telur því ekki ástæðu til að hliðra staðsetningu hótelsins ofar í hlíðina til að draga frekar úr umfangi landfyllingarinnar.
Athugasemd b)
Lónið, sem heyrir eins og áður sagði undir náttúruverndarlög, er mikilvægur fæðustaður fugla sérstaklega að vori m.a. fyrir fugla sem verpa á hverfisverndarsvæðinu vestan Eyjafjarðarbrautar. Á það ekki síst við um grynningar og leirur einmitt þar sem viðbótar landfylling virðist eiga að koma. Þarna rennur lækur út í lónið sem eykur fæðugildið og því mikilvægt að lækurinn fái að halda sér. Út frá framansögðu virðist nokkuð ljóst að umfang og stærð áætlaðra framkvæmda rúmist ekki á umræddu svæði nema gengið sé töluvert á lífríki svæðisins bæði á landi og í lóninu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að umfang landfyllingarinnar sé ásættanleg og að áhrif hennar á lífríki lónsins séu hófleg sbr. umfjöllun um lið a). Nefndin telur einsýnt að lækurinn sem vísað er til muni áfram renna út í lónið og skilyrði lífríkis lónsins skerðist ekki að því leyti vegna framkvæmdarinnar.
Athugasemd c)
Óshólmanefnd ítrekar ánægju sína með jákvæða þætti tilllagnanna en leggur áherslu á að allra leiða verði leitað við lokahönnun allra mannvirkjanna til að lágmarka neikvæð áhrif á umhverfið og þá sérstaklega hvað varðar leirur og grynningar í lóninu. Einnig að þess verði ætt að fuglar eigi greiða umferðarleið með unga frá varpstað í skóginum út í lónið.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að með hóflegum ráðstöfunum ætti að vera hægt að útbúa umferðarleið fyrir fugla frá skógi niður í fjöru og leggur til við sveitarstjórn að skilmála þess efnis verði bætt við deiliskipulagið.
2. erindi, sendandi Akureyrarbær
Athugasemd a)
Skipulagsráð gerir ekki athugasemdir við framlagðar tillögur en bendir jafnframt á eftirfarandi: Hótelbygging á umræddum stað mun vafalítið auka umferð gangandi, hlaupandi og hjólandi vegfarenda um Leirustíg. Því er brýnt að Vegagerðin flýti áætluðu hringtorgi á gatnamótum Þjóðvegar 1 og Eyjafjarðarbrautar eystri og göngubrú yfir Eyjafjarðará meðfram Leirubrú. Jafnframt telur skipulagsráð mikilvægt að Eyjafjarðarsveit haldi áfram með stíginn sem verið er að leggja meðfram Leiruvegi svo ná megi öruggri tengingu yfir þjóðveginn að Vaðlaskógi, Skógarböðunum og fyrirhuguðu hóteli.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd tekur undir sjónarmið sem fram koma í erindi sendanda og leggur til við sveitarstjórn að sveitarfélagið þrýsti á um framkvæmdir Vegagerðarinnar við gatnamót Eyjafjarðarbrautar og Þjóðvegar 1 og göngubrú yfir Eyjafjarðará. Nefndin leggur einnig til að framkvæmdum sveitarfélagsins við gerð göngu- og hjólastígs að Skógarböðunum verði flýtt eins og kostur er.
3. erindi, sendandi Minjastofnun
Athugasemd a)
Minjastofnun bendir á að á svæðinu eru tvær skráðar minjar, annarsvegar heimild um leið (nr. 2848-02) og hinsvegar tóft (nr. 2848-01). Ekki er þörf á frekari mótvægisaðgerðum vegna fornleifar 2848-02 (heimild um leið) en grafa þurfi könnunarskurð þvert í gegnum tóft 2848-01 til að reyna að komast að aldri og hlutverki minjastaðarins áður en hann hverfur.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að ákvæði um skráðar minjar og nauðsynlegar rannsóknir sem fram skulu fara áður en framkvæmda/byggingarleyfi eru veitt verði bætt við greinargerð deiliskipulags.
4. erindi, sendandi Norðurorka
Athugasemd a)
Núverandi dreifikerfi hita-og vatnsveitu ræður ekki við áætlað byggingarmagn á lóð. Lóðarhafi og Norðurorka þurfa að skoða málið í sameiningu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að endurskoða þurfi fyrirhugaða vatnsöflun fyrir hótelið í ljósi athugasemdar sendanda og leggur til við sveitarstjórn að framkvæmdaraðila verði falið að leggja fram staðfestar upplýsingar um það hvernig neysluvatns, vatns til slökkvistarfa og hitaveituvatns verði aflað.
5. erindi, sendandi HNE
Athugasemd a)
HNE vekur athygli á því að landrými norðan þjóðvegar er takmarkað og ljóst að það verður krefjandi verkefni að koma þar fyrir skólphreinsistöð sem uppfyllir kröfur reglugerðar um fráveitur og skólp.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
Athugasemd b)
Jafnframt er minnt á að fráveituvatn frá eldhúsi veitingastaðar þarf að forhreinsa í fitugildru áður en því er veitt í hreinsistöð.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að ákvæði um fituhreinsun fráveitu frá eldhúsi verði bætt við greinargerð deiliskipulags.
Athugasemd c)
Sú starfsemi sem fyrirhuguð er á svæðinu er starfsleyfisskyld hjá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra skv. reglugerð um hollustuhætti nr. 941/2002 og matvælalögum nr. 93/1995. Því leggur embættið áherslu á að fá teikningar af fyrirhuguðum byggingar til umsagnar tímanlega.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að upplýsingum um leyfisskylda starfsemi verði bætt við greinargerð deiliskipulags.
6. erindi, sendandi Náttúrufræðistofnun Íslands
Athugasemd a)
Svæðið þar sem hóteluppbyggingin er áætluð hafi ekki sérstaklega hátt verndargildi út frá náttúruverndarsjónarmiðum, enda ræktað land að nær öllu leyti og einkum skógræktarsvæði. Þó finnast þar graslendisvistgerðir með nokkuð hátt verndargildi, en ekki er um stórt svæði að ræða. Uppbyggingin mun einnig raska búsvæðum lífvera t.d. fugla, sér í lagi sem nýta sér ræktaða skóga, og skerða að einhverju leyti útivistargildi skógræktarsvæðisins. Því er mikilvægt að halda raski í lágmarki eins og hægt er.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að í auglýstri skipulagstillögu sé leitast við að lágmarka röskun á þeim verndarhagsmunum sem í hlut eiga, þá einkum skógarins og lífríkis hans og fjörunnar og lífríkis hennar. Skipulagsnefnd telur því ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd b)
Huga þarf vel að áhrifum landfyllingar á lífríkis, einkum fuglalíf. Taka þarf tillit til þess á framkvæmdatíma.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að í ljósi þess hve framkvæmdasvæðið er hlutfallslega lítill hluti varpsvæðis fugla á svæðinu sé ekki ástæða til að setja sérstaka skilmála um framkvæmdatíma í deiliskipulagið.
Athugasemd c)
Þá er grundvallaratriði að áformaðar breytingar á fyrirkomulagi fráveitu, þ.e.a.s. nýtt hreinsivirki, verði að veruleika sem allra fyrst því ljóst er að aukin umsvif á svæðinu munu auka álag á fráveitu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd er sammála sjónarmiðum sendanda og telur nýtt hreinsivirki fráveitu algjöra forsendu þess að starfsemi hótelsins geti hafist. Nefndin telur að auglýst deiliskipulagstillaga geri grein fyrir þessum aðstæðum á fullnægjandi hátt og telur því ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á tillögunni.
7. erindi, sendandi Sævar Þór Halldórsson f.h. Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN)
Athugasemd a)
Lónið, sem heyrir [ ... ] undir náttúruverndarlög, er mikilvægur fæðu staður fugla sérstaklega að vori m.a. fyrir fugla sem verpa á hverfisverndarsvæðinu vestan Eyjafjarðarbrautar. Á það ekki síst við um grynningar og leirur einmitt þar sem viðbótar landfylling virðist eiga að koma. Þarna rennur lækur út í lónið sem eykur fæðugildið og því mikilvægt að lækurinn fái að halda sér. Út frá framansögðu virðist nokkuð ljóst að umfang og stærð áætlaðra framkvæmda rúmist ekki á umræddu svæði nema gengið sé töluvert á lífríki svæðisins bæði á landi og í lóninu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að skerðingin sem verður á leirunum/grynningum í lóninu vegna landfyllingarinnar sé svo lítil í hlutfalli við stærð lónsins að áhrifin á umhverfislega verndarhagsmuni séu óveruleg. Nefndin telur einnig einsýnt að lækurinn sem vísað er til muni áfram renna út í lónið og skilyrði lífríkis lónsins skerðist ekki að því leyti vegna framkvæmdarinnar. Auk þess bendir nefndin á að með skipulagstillögunni sem nú er auglýst er dregið verulega úr umfangi landfyllingar frá því sem gert er ráð fyrir í eldra skipulagi. Nefndin telur því ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd b)
Að framansögðu benda samtökin á að í náttúruverndarlögum skulu svæðum sem falla undir lögin ekki raskað nema brýna nauðsyn beri til. Ekki er hægt að túlka það að þessar framkvæmdir séu brýnar og betra væri því að byggja hótelið og innviði innar í landið.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að ýmsir umhverfislegir hagsmunir eigi í hlut varðandi framkvæmdaáformin og nefndin telur að í auglýstri skipulagstillögu sé leitast við að lágmarka röskun á þeim verndarhagsmunum sem í hlut eiga, þá einkum skógarins og lífríkis hans annars vegar og fjörunnar og lífríkis hennar hinsvegar. Skipulagsnefnd telur því ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
8. erindi, sendandi Vegagerðin
Athugasemd a)
Vegagerðin hefur veitt leyfi fyrir vinnuvegi á svæðinu. Sækja þarf um leyfi fyrir varanlegum vegi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
Athugasemd b)
Hönnun og bygging vegamóta við Eyjafjarðarbraut vestri (829) þarf að vera með samþykki og í samráði við Vegagerðina. Ef sækja á um að vegur að hóteli verði tekinn inn á vegaskrá þarf hönnun vegar og bygging að vera í samráði og með samþykki Vegagerðarinnar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
Athugasemd c)
Gert er ráð fyrir að skólp frá svæðinu verði veitt í hreinstöð norðan Hringvegar (1), líklega þar sem reitur I2 er merktur á aðalskipulagi. Svæðið á þessum stað er innan veghelgunarsvæðis og lítið pláss frá vegi niður í fjöru. Aðkoma að fyrirhugaðri hreinsistöð er mjög erfið, bæði upp á byggingu og þjónustu. Vegagerðin fer fram á að staðsetning verði endurskoðuð og hreinsistöð fundinn staður með auðveldara aðkomu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu athugasemdarinnar og felur skipulagsfulltrúa að boða til funda með aðilum málsins vegna þessarar athugasemdar.
Athugasemd d)
Sækja þarf um leyfi til Vegagerðarinnar fyrir öllum mannvirkjum og framkvæmdum innan veghelgunarsvæðis. Á það líka við þótt mannvirki eða framkvæmdir séu á samþykktu skipulagi.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
Athugasemd e)
Veghelgunarsvæði er sýnt á deiliskipulagsuppdrætti skv. skipulagsreglugerð en vantar í skýringar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að viðeigandi skýringartexta verði bætt við deiliskipulagsuppdrátt.
Athugasemd f)
Við hönnun bílastæðis þarf að taka tillit til akstursferla hönnunarökutækja. Sýndur er göngu- og hjólastígur meðfram aðkomuvegi að hóteli. Hönnun hans þarf að vera í samráði við Vegagerðina.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
9. erindi, sendandi Umhverfisstofun
Athugsemd a)
Umhverfisstofnun telur æskilegt að uppdrættir deiliskipulags sem sýnir gildandi deiliskipulag og breytt deiliskipulag séu í sama mælikvarða þ.e. 1:2000.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd b)
Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að það komi fram undir kaflanum „Skipulagsleg staða ?aðalskipulag“ hver sé stefna sveitarfélagsins í aðalskipulagi varðandi vernd fuglalífs í Óshólmunum, verndun mikilvægra fæðusvæða fugla, verndun vatns og verndun bakkagróðurs.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að Óshólmar Eyjafjarðarár séu skilgreindir sem hverfisverndarsvæði í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins og þar sé að finna greinargóða lýsingu á stefnu sveitarfélagsins varðandi verndun lífríkis á svæðinu. Nefndin bendir á að verslunar- og þjónustusvæði VÞ22 og skipulagssvæði deiliskipulagstillögu sem hér um ræðir liggi utan hverfisverndarsvæðisins og að sveitarfélagið hafi því ekki sett sérstaka skilmála eða stefnu varðandi verndun lífríkis á skipulagssvæðinu.
Athugasemd c)
Umhverfisstofnun leggur áherslu á að fjallað sé um votlendi sem nýtur verndar náttúruverndarlaga í tillögunni og umhverfisskýrslu og það komi fram hvaða leiðir verði farnar til þess að forðast rask votlendisins, sbr. 61. gr. náttúruverndarlaga, og hvaða valkostir séu skoðaðir. Umhverfisstofnun bendir á að ef tillagan gerir ráð fyrir röskun á votlendi þurfi að rökstyðja þá ákvörðun og gera grein fyrir öðrum kostum sem skoðaðir hafa verið sem mögulegir valkostir við útfærslu framkvæmdarinnar og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að í umhverfisskýrslu auglýstrar skipulagstillögu komi fram að landfylling vegna hótelsins sé hlutfallslega mjög lítil miðað við lónið og búsvæði fugla í Óshólmum Eyjafjarðarár. Einnig kemur fram að ekki sé talið að áhrif uppbyggingarinnar á fuglalíf séu veruleg. Varðandi skoðun annarra valkosta bendir skipulagsnefnd á að ýmsir umhverfislegir hagsmunir komi við sögu varðandi framkvæmdaáformin og nefndin telur að í auglýstri skipulagstillögu sé leitast við að lágmarka röskun á þeim verndarhagsmunum sem í hlut eiga, þá einkum skógarins og lífríkis hans annars vegar og fjörunnar og lífríkis hennar hinsvegar. Skipulagsnefnd telur því ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Athugasemd d)
Stofnunin bendir á að skylt er að afla framkvæmdaleyfis, eða eftir atvikum byggingarleyfis, vegna allra framkvæmda sem fela í sér röskun á svæðum sem njóta sérstakrar verndar, sbr. skipulagslög og lög um mannvirki. Á þetta að tryggja að tekið sé til ítarlegrar skoðunar hvort skilyrði 61. gr. náttúruverndarlaga séu uppfyllt. Við mat á leyfisumsókn ber að vega saman mikilvægi náttúruminjanna sem í húfi eru og hagsmuni af fyrirhugaðri framkvæmd. Við matið skal litið til verndarmarkmiða 2. og 3. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, auk þess sem tekið skal mið af mikilvægi minjanna og sérstöðu í íslensku og alþjóðlegu samhengi, sbr. 3. og 4. mgr. 61. gr. laganna.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Gefur ekki tilefni til bókunar.
Athugasemd e)
Umhverfisstofnun telur æskilegt að áætlaður fjöldi gesta og starfsmanna sem dvelja og heimsækja verslunarsvæðið að jafnaði komi fram í tillögunni. Auk þess bendir stofnunin á mikilvægi þess að fjallað sé um umfang fráveitu, þ.e. hversu mörgum persónueining um það skal anna með tilliti til fjölda gesta og eðlis hreinsivirkja.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að gestafjöldi og fjöldi persónueininga í fráveitukerfi komi fram í auglýstri deiliskipulagstillögu en leggur til að lýsingu á hreinsivirki verði bætt við skipulagstillögu.
Athugasemd f)
Umhverfisstofnun bendir á að í 28. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, þar sem fjallað er um réttaráhrif vatnaáætlunar, segir að opinberar áætlanir á vegum stjórnvalda, svo sem vegna skipulagsmála, náttúruverndar, orkunýtingar og samgangna, skulu vera í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun. Við endurskoðun eða breytingu skipulagsáætlunar sveitarfélags skal, þegar við á, samræma skipulagsáætlunina vatnaáætlun innan sex ára frá staðfestingu vatnaáætlunar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að umfjöllun um samræmi uppbyggingarinnar við þá stefnumörkun sem fram kemur í vatnaáætlun verði bætt við skipulagstillöguna.
Athugasemd g)
Umhverfisstofnun bendir á mikilvægi þess að það komi fram hversu mikið efni þarf í landfyllinguna og hvaðan það efni kemur. Einnig þarf að skoða hvort að framkvæmdin falli undir 9. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda, þar sem að útrás liggur frá lóninu að hafi. Umhverfisstofnun vekur athygli á að samkvæmt 9. gr. laganna er varp efna og hluta í hafið óheimilt. Umhverfisstofnun óskar eftir samráði við sveitarfélagið hvað ofangreint varðar.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Fram kemur í auglýstri skipulagtillögu að um 3000 m3 efnis þurfi í landfyllinguna og telur skipulagsnefnd ekki að breyta þurfi skipulagstillögunni hvað það varðar.
Athugasemd h)
Umhverfisstofnun bendir á að samkvæmt 62. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd segir að við vatnsnýtingu og framkvæmdir í eða við vötn skal leitast við að viðhalda náttúrulegum bakkagróðri við ár og stöðuvötn og haga mannvirkjum og framkvæmdum þannig að sem minnst röskun verði á bökkum og næsta umhverfi vatnsins.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd bendir á að gerð er grein fyrir skerðingu bakkagróðurs vegna uppbyggingarinnar í auglýstri skipulagstillögu. Nefndin telur að um hóflega skerðingu sé að ræða og telur ekki ástæðu til að breyta auglýstri skipulagstillögu hvað það varðar.
10. erindi, sendandi Skógræktarfélag Eyfirðinga
Athugasemd a)
Skógræktarfélaginu virðist sem í þeim gögnum sem það fékk sent 9. nóvember sl. lítið vera gert úr starfsemi félagsins við uppbyggingu Vaðlaskógar, sem er án vafa ein af skógræktarperlum landsins. Þar hefur verið ræktaður óvenju fjölbreyttur skógur af mikilli elju í tæplega níu áratugi og að mestu í sjálfboðavinnu almennings og félagsmanna. Telur félagið að breytingartillagan feli ekki í sér hlutlæga umfjöllun um þau neikvæðu áhrif sem breytingartillagan hefur á umhverfið.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd tekur ekki undir að lítið sé gert úr starfsemi Skógræktarfélags Eyfirðinga við uppbyggingu Vaðlaskógar í auglýstum skipulagstillögum og nefndin telur ennfremur að umfjöllun um umhverfisáhrif uppbyggingarinnar sé í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar þar að lútandi sbr. gr. 4.4.1 í reglugerð nr. 90/2013.
Athugasemd b)
Kemur þar meðal annars fram að ekki sé talið að breytingin hafi veruleg umhverfisáhrif, en félagið telur ótvírætt að breytingartillagan feli í sér veruleg umhverfisáhrif.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd telur að í ljósi þess hve lítill hluti skógræktarsvæðisins og fjörunnar verða fyrir beinum áhrifum af skipulagsbreytingunni sem hér er til umfjöllunar þá teljist umhverfisáhrif breytingarinnar ekki veruleg og að því leyti sé greiningin sem fram kemur í auglýstum skipulagstillögum réttmæt. Nefndin telur því ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á auglýstum skipulagstillögum.
Athugasemd c)
Einnig setur félagið spurningamerki við að núverandi þéttleiki skógarins sé notaður sem stýring á umferð um svæðið um ókomna tíð og þannig verið að setja félaginu skorður um hvernig það hirðir um skóginn í framtíðinni.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd tekur undir að tilkoma hótelsins megi ekki setja grisjun, umhirðu og eðlilegri framvindu skógarins skorður og leggur til við sveitarstjórn að ákvæði því til áréttunar skuli bætt við auglýsta aðalskipulagstillögu.
Athugasemd d)
Þó forsendur skipulagsbreytingatillögunnar séu umrædd hótelbygging þá verður ekkert af slíkri byggingu nema að framkvæmdaraðilinn nái samkomulagi við Skógræktarfélag Eyfirðinga. Grundvallarforsenda fyrir samkomulagi er að aðgengi almennings að skóginum skerðist ekki og að viðhlítandi bætur fáist fyrir þann umráðamissi sem framkvæmdirnar leiða af sér. Ekkert slíkt samkomulag liggur fyrir á þessu stigi máls og því leggst félagið alfarið gegn breytingartillögunni og telur hana brjóta í bága við þau réttindi sem félagið á yfir landinu.
Afgreiðsla skipulagsnefndar: Skipulagsnefnd er meðvituð um að sveitarfélaginu er ekki unnt að veita leyfi til framkvæmda nema samþykki umráðaaðila landsins sem í hlut á liggi fyrir. Hinsvegar bendir nefndin á að eignar- eða leiguréttindi yfir landi veita umráðaaðila ekki skipulagsvald og því brjóti auglýst skipulagstillaga ekki í bága við réttindi sem Skógræktarfélag Eyfirðinga hefur. Skipulagsnefnd bendir á að í gildandi aðalskipulagi sveitarfélagsins komi fram markmið um eflingu ferðaþjónustu og eflingu atvinnulífs í sveitarfélaginu, og að auglýst skipulagstillaga styðjist þannig við yfirlýsta og samþykkta stefnu sveitarfélagsins. Auglýst skipulagstillaga gerir ráð fyrir að skógræktarsvæðið minnki um u.þ.b. 0,9 ha og bendir nefndin á að staðsetning hótelsins hafi verið valin m.a. með tilliti til þess að stilla þeirri skerðingu í hóf eins og unnt væri. Nefndin telur þannig að í auglýstri skipulagstillögu felist eðlileg málamiðlun milli hagsmuna sem ekki er hægt að samræma að fullu leyti. Nefndin telur ekki að athugasemdin gefi tilefni til breytinga á auglýstri skipulagstillögu.
Ekki eru gerðar athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur í erindum Isavia, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra eða Skógræktarinnar.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að auglýstum skipulagstillögum verði breytt eins og fram kemur í afgreiðslu á athugasemdum 1c, 3a, 4a, 5b, 5c, 8e, 9e, 9f og 10c. Skipulagsnefnd frestar afgreiðslu athugasemda 8 c) og felur sveitarstjóra og skipulagsfulltrúa að afla frekari gagna í málinu.
Anna Guðmundsdóttir vék af fundi við afgreiðslu málsins.
4. Þingeyjarsveit - Umsagnarbeiðni um Aðalskipulag Þingeyjarsveitar nr. 0881 2023 - 2312015
Þingeyjarsveit, sameinað sveitarfélag Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar, óskar umsagnar Eyjafjarðarsveitar um tillögu á vinnslustigi að nýju aðalskipulagi sveitarfélagsins sem nú er í kynningu skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsagnarfrestur um tillöguna er til 22. janúar 2024.
Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að ekki verði gerð athugasemd við skipulagstillöguna.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 10:30