Dagskrá:
1. Fjallskil 2024 - 2405000
Fjallskilanefnd óskar eftir við sveitarstjóra að sleppingar séu auglýstar líkt og árlega en að sleppingardegi sé seinkað til 15.júní vegna aðstæðna svo sem snjóalaga og gróðurs, þá séu fjáreigendur beðnir um að taka mið af aðstæðnum á sinni afrétt eftir þann dag.
Landeigendur eru jafnframt minntir á að huga að girðingum.
Þá er óskað eftir að auglýst verði að "Nýti umráðamaður ekki að fullu land það sem hann hefur fyrir eigin búfé er honum heimilt að leyfa öðrum afnot af því að því marki sem beitarþol leyfir. Ef um óskipt land er að ræða verða sameigendur einnig að veita leyfi fyrir slíkri heimild. Umráðamanni lands ber að tilkynna til sveitarstjórnar hverjum hann heimilar beit og fyrir hvaða fjölda búfjár, sbr. 8. gr. laga nr. 6/1986, sbr. einnig ákvæði í 7. gr. fjallskilasamþykktar fyrir sveitarfélög við Eyjafjörð nr. 173/2011."
Göngur verða eftirfarandi:
1. göngur fara fram 5. september - 8. september.
2. göngur fara fram 20. - 22. september.
Hrossasmölun verður 4.október og stóðréttir 5.október.
2. Afréttaskrá - 2405001
Fjallskilanefnd leggur til við sveitarstjórn að staðfestar verði fyrirliggjandi afréttaskrár frá árinu 1999 en engar breytingar hafa orðið á þeim frá þeim tíma. Nefndin óskar jafnframt eftir að afréttaskrárnar verði unnar upp á rafrænt form og gerðar betur aðgengilegar.
3. Búfjársamþykkt Eyjafjarðarsveitar - 2110036
Atvinnu- og umhverfisnefnd hefur lokið vinnu við uppfærslu búfjársamþykktar og gefst fjallskilanefnd færi á að koma með athugasemdir við hana áður en sveitarstjórn tekur hana til síðari afgreiðslu.
Fjallskilanefnd leggur til við sveitarstjórn að eftirfarandi grein sé bætt við búfjársamþykktina:
"Sveitarstjórn getur veitt leyfi til að halda allt að 10 hænur í öruggu aðhaldi í íbúðarbyggð, en hanar eru þar með öllu bannaðir. Sá sem vill stunda hænsnahald í íbúðarbyggð skal senda skriflega umsókn til sveitarfélagsins á þar til gerðu eyðublaði. Í umsókninni skal gera grein fyrir fjölda hænsna sem halda skal, tegund hænsnfugla, hvaða húsnæði er til umráða og öðru sem máli kann að skipta fyrir öryggi þeirra og vörslu. Sveitarstjóri tekur við og afgreiðir umsóknir um leyfi til hænsnahalds í íbúðarbyggð. Forstöðumaður eignasjóðs hefur umboð til að taka á brotum, kanna aðstöðu og krefjast úrbóta ef þörf þykir. Verði leyfishafi ekki við þeim kröfum má afturkalla leyfið án fyrirvara."
Fjallskilanefnd bendir einnig á að mikilvægt er að taka tillit bæði til hags landeigenda og eigenda hrossa varðandi lok beitartímabils.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:20