Fréttayfirlit

HUGVITSAMLEG HÖNNUN

 



-         Verðlaunaafhending samkeppninnar Þráður fortíðar til framtíðar fór fram á handverkshátíðinni í Hrafnagili síðastliðinn Laugardag. Mikil gróska í íslenskri hönnun að mati dómnefndar.


Álfheiður Björg Egilsdóttir hlaut fyrstu verðlaun í flokknum „fatnaður“ fyrir kraga og Sigurlína Jónsdóttir fékk fyrstu verðlaun í „opnum flokki“ fyrir prjónað áklæði á hjólahnakka. Að mati dómnefndar báru tilnefningar í báðum flokkum vott um þá miklu grósku sem er í íslenskri hönnun í dag. „Verðlaunatillögurnar voru fremstar meðal jafningja og þóttu snjallar, nýstárlegar og í takt við tíðarandann“, segir Ester Stefánsdóttir, framkvæmdarsstjóri Þráður fortíðar til framtíðar en keppnin hvar haldin í fyrsta skipti í ár.


 
Hátt í átta þúsund manns sóttu sýningu sem sett var upp í tengslum við samkeppnina. „Auk þess að skapa farveg fyrir þann gríðarlega fjölda sem er að skapa verk úr íslenskri ull og verðlauna þá er skara fram úr á því sviði er samkeppnin ekki síður mikilvæg til að skapa tengsl milli framleiðenda og hönnuða en á laugardeginum gafst þeim aðilum tækifæri til að hittast og ráða ráðum sínum. Forsvarsmenn fyrirtækja hafa þegar sýnt nokkrum hlutum á sýningunni áhuga með framleiðslu í huga,” segir Ester sem er sannfærð um að sá vettvangur sem hönnunarsamkeppnin Þráður fortíðar til framtíðar skapar sé nauðsynlegur hluti verðmætasköpunar í ullariðnaði.


 



Meginmarkmið samkeppninnar er að vekja athygli möguleikum íslensku ullarinnar þegar kemur að handverki og hönnun en hún er haldin í samvinnu við Dórótheu Jónsdóttur framkvæmdastýru Handverkshátíðarinnar að Hrafnagili, Landsamtök sauðfjárbænda, Ístex hf., Glófa ehf., Sauðfjárræktarfélag Hólasóknar í Eyjafirði og Sauðfjárrækarfélagið Frey. Dómnefnd keppninnar var skipuð þeim Védísi Jónsdóttur frá Ístex, Loga A. Guðjónssyni frá Glófa ehf., Birgi Arasyni frá Félagi sauðfjárbænda í Eyjafirði, Sveinu Björk Jóhannesdóttur textílhönnuði og Jenný Karlsdóttur útgefanda Munsturs og menningar.


Meðfylgjandi eru myndir af vinningsverkunum og verðlaunahöfunum.

Vinningshafar: Sigurlína Jónsdóttir (t.v.) og Álfheiður Björg Egilsdóttir (t.h.)

 


14.08.2009

20 þúsund heimsóknir á Handverkshátíð

Eftir mánudag á Handverkshátíð hafa heimsóknir á hátíðina farið nærri 20 þúsund sem má telja algert aðsóknarmet.  Bros á hverju andliti í blíðskaparveðri skapaði einstaka stemningu. 

13.08.2009

Metaðsókn á Handverkshátíð

 Hátíðin er opin í dag mánudag kl. 12-19.

Metaðsókn var á hátíðina um helgina því 15.000 manns hafa sótt hátíðina heim. 

Bros á hverju andliti í 20 stiga hita og sól hefur skapað frábæra stemningu á hátíðarsvæðinu.

Hönnunarsamskeppni um nýsköpun í ullarvörum var í tengslum við sýninguna og þá þótti við hæfi að sýna rúning á ullinni.  Birgir Arason rúningsmaður sýnir daglega vélrúning og fékk til liðs við sig konur í sveitinni með rokkinn og sátu þær við spuna. 

Margt er um óvenjulegt hráefni á svæðinu sem hefur vakið eftirtekt.  Tískusýningar, fyrirlestrar og námskeið krydda dagskrána í hvívetna.

Að þessu sinni er staðið að hátíðinni á annan máta en hefur verið því öll félögin í sveitinni hafa lagt hönd á bagga.  Lionsklúbburinn Vitaðsgjafi, þrjú kvenfélög, Ungmennafélagið Samherjar og Hjálparsveitin Dalbjörg ásamt gríðarlegum fjölda tónlistarfólks og skemmtikrafta, allt fólk sem tengist Eyjafjarðarsveit á einn eða annan hátt. 

Handverkskona ársins 2009 var verðlaunuð á kvöldvöku í gær og þann titil hlaut Guðrún Ásgerður Steingrímsdóttir handverkskona með meiru.

Hátíðin er vel heppnuð í alla staði og í dag mánudag milli 12-19. 



10.08.2009

Handverkshátíð 2009

Handverkshátíð 2009 – 7.-10.ágúst
Opið föstudag til mánudags kl 12-19
  • Yfir 100 sýnendur
  • Hönnunarsamkeppni – Þráður fortíðar til framtíðar
  • Tískusýningar
  • Fyrirlestur “Jurtalitun fyrr og nú”
  • Rúningur
  • Yfirlitssýning hjá Félagi aldraðra Eyjafirði 
  • Verksvæði handverksmanna
  • Krambúð
  • Námskeið
  • Kvöldvaka
  • Myndlistarsýning undir berum himni
  • Laufáshópurinn
  • Heimilisiðnaðarfélagið
  • Kvenfélagasamband Íslands
  • Vélasýning



KORTIÐ TIL ÚTPRENTUNAR

Handverkskveðja,

Dóróthea Jónsdóttir,  

www.handverkshatid.is
 

s. 864-3633

03.08.2009

Félag aldraðra Eyjafirði

Í tengslum við Handverkshátíðina verður ýmislegt að gerast á hátíðarsvæðinu.

Félag aldraðra Eyjafirði var stofnað 4.nóvember 1989. Þá eins og nú er tilgangurinn að stuðla að félagslegum og menningarlegum samskiptum fólks á svæðinu. Starfsemin er fjölþætt, svo sem ýmiskonar handverk, gönguferðir, leikfimi, ferðalög, leikhúsferðir, þorrablót, jólahlaðborð ofl.

Nú hefur félagið, á 20 ára afmælisárinu, fengið afhent húsnæði á Hrafnagili, sem mun auka enn á fjölbreytni í starfsemi félagsins.

Í tilefni 20 ára afmælisins verður yfirlitssýning í húsnæði heimavistarhúss við Hrafnagilsskóla.

Opið föstudag til mánudags kl. 12-19.

Allir hjartanlega velkomnir
30.07.2009

Dagskrá hátíðar

Föstudagur
11:30 Setning hátíðar
14:00 Vélrúningur á kindum

Laugardagur
14:00
Vélrúningur á kindum
15:00 Verðlaunaafhending Hönnunarsamkeppni
16:00 Tískusýning
20:30 Kvöldvaka

Sunnudagur
14:00
Vélrúningur á kindum
15:00 Fyrirlestur – Jurtalitun fyrr og nú með Jenný Karlsdóttur
16:00 Tískusýning

Mánudagur
16:00 Tískusýning

Hátíðardagana verða einnig eftirfarandi viðburðir :
Yfirlitssýning í tilefni 20 ára afmælis Félags aldraðra í Eyjafirði
Myndlistarsýning undir berum himni - Þorsteinn Gíslason
Sýning á forndráttarvélum
Teymt undir börnum

29.07.2009

UNDIR KREPPUNNI KRAUMAR KRAFTUR

Á fjórða hundrað innsend verk í hönnunarsamkeppnina Þráður fortíðar til framtíðar, bera vitni um feikilegan sköpunarkraft og hugvit. Dómnefnd hefur tilnefnt 10 verk til úrslita. Vinningshafar verða tilkynntir á Handverkshátíðinni að Hrafnagili laugardaginn 8. ágúst.

Meðfylgjandi er mynd af svokölluðum Heklukrílum eftir Sigrúnu Eldjárn sem er verk sem verður á sýningunni á Handverkshatíð.


27.07.2009

Námskeið í tengslum við Handverkshátíð 2009

Horn og bein með Guðrúnu Steingrímsdóttur
Þráðarleggur með Oddný Magnúsdóttur
Þæfingarnámskeið fyrir börn 8-12 ára með Nönnu Eggertsdóttur

Taulitun með Procion MX litum frá Jacquard með Sveinu Björk Jóhannesdóttur
Tauþrykk með textíllitum frá Jacquard og Shiva paintstik litum með Sveinu Björk Jóhannesdóttur

Í tengslum við Handverkshátíð 2009 verða ofantalin námskeið, sjá nánar undir Námskeið í valmynd.



Þráðaleggir Oddnýjar E. Magnúsdótttur eiga sér langa sögu.

15.07.2009

Gríðarleg þátttaka í hönnunarsamkeppni

Skilafrestur í hönnunarsamkeppnina Þráður fortíðar til framtíðar rann út föstudaginn 3.júlí.  

Yfir 300 bögglar hafa borist og mikil vinna er fyrir höndum við að undirbúa fyrir störf dómnefndar.

Keppt er í tveimur flokkum, annars vegar flíkur og hins vegar opinn flokkur. 

Það má búast við fjölbreyttum verkum því greinilegt er að Íslendingar tóku rækilega við sér.    

20 verk úr hvorum flokki verða valin á sýningu sem fram fer á Handverkshátíð 2009 í Hrafnagilsskóla.

Tilnefningar til verðlauna verða kynntar hálfum mánuði fyrir hátíð.


03.07.2009

Sýnendur hátíðar

Gríðarlegur fjöldi umsókna barst vegna þátttöku á Handverkshátíð 2009.  Yfir 70 einstaklingar og félög munu vera meðal sýnenda á hátíðinni og mikið af nýjum aðilum.  Spennandi tímar framundan.
01.07.2009