Sunnudaginn 30. júlí kl. 12 opnar sænska farandsýningin UR BJÖRK, eða úr birki, í Hrafnagilsskóla. Að sýningunni standa 22 handverksmenn og -konur sem skiptu á milli sín heilu birkitré og fengu það hlutverk að nýta allt efnið með frjálsum huga og höndum. Það tók hópinn 6 mánuði að vinna alla þessa 400 muni og það skal tekið fram að allt var nýtt af þessu tiltekna tré sem var 30 cm í þvermál og 25 m hátt. Sænski heimilisiðnaðarráðunauturinn Knut Östgård er einn af aðstandendum sýningarinnar en Knut er sérstakur gestur á Handverkshátíðinni í ár.
Sýningin er fengin hingað í tengslum við Handverkshátíðina og verður opin frá 30. júlí til 13. ágúst kl. 12-18. Miðaverð er 500 kr. fyrir fullorðna eða armband sem gildir á Handverkshátíðina, 1.000 kr.
UR BJÖRK er virkilega falleg og stórbrotin sýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.